Svikin um góða veðrið

Þetta er alveg ótrúlegt. Þeir á veðurstofunni bara sviku okkur um góða veðrið enda var hann Þór veðurfræðingur vandræðalegur í kvöld þegar hann var að afsaka sólarspána frá í gær.


Við Haukur fórum með Odd á spítalann í Hafnarfirði morgun til að taka úr honum slönguna frá í gær. Ég tók ekki annað í mál því Guðbjörg vakti meira og minna í nótt við að fylgjast með honum af hræðslu við að eitthvað færi úrskeiðis og rannsóknin eyðileggðist. Sem betur fer reif hann slönguna ekkert úr og stóð sig bara sem hetja í þessu öllu. Hann var svaka harður af sér þegar allir plástrarnir voru rifnir af og slangan dregin upp í morgun. Fór þó aðeins að gráta þegar slangan var alveg komin upp og sagði að þetta hafi verið svo sárt. En nú er þetta búið og bara að bíða eftir niðurstöðunum. Við fórum svo með Odd til pabba síns og drifum okkur svo beint aftur austur. Guðbjörg var að vinna á Steikhúsinu í kvöld. Við höfum bara verið heima  nema hvað við skruppum út í göngutúr í kvöld og fórum svo að Skrabbla þegar við komum heim. Nú er klukkan að verða eitt og best að koma sér í rúmið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar