Einn dagur eftir í niðurtalningu fyrir bakaðgerðina.

Jæja, það hefur allt gengið með hraði eftir að ég fékk tímann hjá honum Aroni Björnssyni skurðlækni. Hann sendi mig strax í segulómun, síðan kom um tveggja vikna bið og svo er bara komið að aðgerðinni.  Ég fór í undirbúning upp á  Borgarspítala á föstudaginn og var þar í á þriðja tíma og fékk ýmsar upplýsingar. Ég hélt t.d. að þetta yrði gert með smásjá í gegnum göt en svo er ekki heldur er þetta skurður, en mér er nú alveg sama um það þó ég fái einn slíkan í viðbót við þá sem fyrir eru á ýmsum stöðum líkamans.   Ég get ekki annað sagt en að það var mjög vandlega farið yfir allt og fyrri saga skoðuð gaumgæfilega.  Starfsfólkið allt var svo alúðlegt og notalegt að sá litli kvíði sem hafði aðeins gert vart við sig var bara horfinn eftir þessa heimsókn. 
Þetta snýst líka hvort sem er bara um að hrökkva eða stökkva því það er ómögulegt að vera svona Lazarus endalaust, þegar eitthvað er hægt að gera í málinu. 

Á morgun á ég að fara í sótthreinsunarbað hérna heima og er með leiðbeiningar sem segja til um það eftir hvaða knústarinnar reglum á að framkvæma það. Síðan verður sú saga endurtekin klukkan 06:45 á þriðjudagsmorguninn þegar ég mæti á spítalann.  Þeir halda kannski að ég hafi aldrei á ævinni farið í bað svo öruggara sé að skrúbba af mér allar bakteríurnar áður en ég mæti, ekki einu sinni, heldur tvisvar.  Svo hélt ég að ég endaði með því að slíta af mér einn fingurinn því það eru fyrirmæli um að það megi ekki vera með neina skartgripi og ég var að berjast við að ná af mér litlum hring með steini sem ég má alls ekki vera með og svei mér þá ég hélt bara í átökunum að fingurinn færi af líka, en þetta slapp til. Giftingarhringurinn, sem er nú svo til gróinn fastur á mig, fær hinsvegar undanþágu af því hann er alveg sléttur.  Já hér skal öryggið haft í fyrirrúmi og sjálfsagt að virða það, enda fyrir mig gert.

Ég er svo heppin að verða fyrsti sjúklingurinn í aðgerð þennan dag og nú vona ég bara að þið, allir mínir vinir og vandamenn hugsi vel til mín svo allt gangi nú vel.  Ég verð síðan send heim eftir sólarhring og á að vera sjúklingur heima þangað til allt er orðið gróið og fínt.

Ég læt nú heyra frá mér þegar þetta verður allt yfirstaðið. Mér skilst reyndar að eftir aðgerðina megi ég ekki sitja í einhvern tíma, ég veit ekki í hvað marga daga eða vikur það er, svo ég fer nú líklega ekkert að sitja lon og don yfir tölvunni á næstunni, en sasmt nóg til þess að láta aðeins vita af mér. Ég ætla nefnilega í einu og öllu að gera nákvæmlega eins og mér er sagt til þess að þetta grói vel og endist vel.

Knús til ykkar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Einn dagur eftir í niðurtalningu fyrir bakaðgerðina.

  1. Elsku Ragna, guð gefi að allt gangi nú vel. Hugsa fallega til þín. Kær kveðja.

  2. Hildur says:

    Ragna mín, ég er búin að hugsa mikið til þín undanfarið vonandi fer þetta allt vel og mínar bestu óskir um góðan bata.

  3. Ragna says:

    Þakka ykkur kærlega fyrir. Þetta hlýtur að ganga vel ég er búin að fá svo mikið af góðum kveðjum á Facebook og hringingar svo það getur bara ekki annað verið en þetta gangi vel.
    Kær kveðja og knús

  4. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Blessuð Ragna.

    Gott að heyra að þú þurftir ekki að bíða lengur. Ég hugsa vel til þín og kveiki á kerti. Gangi þér sem allra best.

    Bestu kveðjur

    Hafdís Baldvinsd.

  5. Ragna á Ak says:

    Sæl nafna mín,ég sé að nú munir þú vera um það bil að fara í aðgerðina og við Magnús sendum þér allra bestu óskir um að allt gangi vel bæði í og eftir aðgerð og hugsum vel til þín.Kærar kveðjur RM.

Skildu eftir svar