Að njóta.

Þetta hefur verið góð og skemmtileg vika og ekki spillir veðrið sem er svona gott dag eftir dag.  Ég hef byrjað daginn á því að fara í göngutúr á meðan Haukur er í ræktinni og er mest búin að ganga ýmist í Kópavogi eða í Breiðholtinu. Ég kalla það landamærastíginn sem liggur hérna fyrir ofan og aðskilur Reykjavík og Kópavog. Út frá þessum stíg liggja svo stígar þvert á, ýmist niður í Breiðholtið eða niður í Salahverfið. Það er því hægt að ganga til skiptis mörgum sinnum milli Reykjavíkur og Kópavogs í einum og sama göngutúrnum. Mér finnst sérstaklega gott að fara hérna niður í Seljahverfið í Breiðholtinu og rölta um það, því þar er gróður orðinn mikill og bæði skjólsælt og fallegt. Nú er göngutúrinn kominn upp í  svona 45 – 50 mínútur á hverjum degi svo ég styrkist óðum. 
Ég finn ekkert til þegar ég er að ganga svona rösklega, en finn aðeins gamla verkinn þegar ég er komin heim og fer að rölta hérna heima, samt ekki nema rétt niður i lærið en ekki alveg niður í rist eins og var.  Ég á að prufa að taka Ibufen um helgina og sjá hvort það er ekki bara einhver bólga sem er að þrýsta aðeins á.  Það er alla vega svo himneskt að geta farið í svona hressandi göngutúra án þess að finna til nokkurs nema ánægju.

Okkur var boðið í afmæli í vikunni til svilkonu minnar sem er gift bróður Odds heitins.  það er alltaf svo gaman að mæta í svona boð.  Svo stendur mikið til í kvöld því það er saumaklúbbspartý hjá Önnu sem býr hérna í næstu götu.  Ein úr saumaklúbbnum er komin alla leið frá Ameríku til þess m.a. að hitta okkur og við ætlum að borða saman og hafa gaman, gaman. Anna sagði við okkur Eddu í morgun að hún vissi nú ekki hvort hún ætti eitthvað að tilkynna það í húsinu að hún yrði með partý, kannski hefðum við nú ekkert svo hátt.  Ég sagði að vitanlega hefðum við hátt eins og við værum vanar, en það væri bót í máli að við myndum örugglega ekki endast fram yfir miðnætti svo hún þyrfti ekkert að tilkynna neitt.   Vonandi kemur löggan ekki á miðju kvöldi og leysir upp gleðskapinn.

Ég er sem sagt í góðum gír og alveg rosalega ánægð með lífið núna og langar mest til að komast á ball, en held það sé ekki leyfilegt alveg strax.  Ég játa þó að ég tók nokkur valsspor með ímynduðum herra, við dillandi harmonikkuspil í útvarpinu í morgun.

Svo er hérna smá lesning úr bókinni um, hamingjuna,
sem er gott að taka með sér inn í helgina.

Við öðlumst ekki hamingjuna
ef við hengjum okkur í þau
efnislegu gæði sem þrýst er
upp á okkur allt um kring –
Losaðu þig undan þeirri áþján
og þú munt finna lífsgleðina.

Eigum öll yndislega helgi og njótum
hverrar mínútu sem okkur er gefin.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Að njóta.

  1. Mikið er gott að heyra hvað aðgerðin hefur tekist vel, eiginlega lygilegt. Í stóra landinu Amer
    íku líður okkur vel í litla bláa húsinu og snúðarnir mínir eru hreint út sagt yndislegir, og ekki spilla foreldrarnir. Gangi þér vel og farðu varlega í dansinum!

  2. Ragna says:

    Þakka þér kærlega fyrir Guðlaug mín. Já ég reyni að hemja mig og geyma dansiböllin lengra fram á sumarið en mikið er gott að komast í göngutúra aftur.
    Ég bið kærlega að heilsa yndislegu fjölskyldunni í litla bláa húsinu í Ameríkunni og auðvitað ykkur bestemann líka.

Skildu eftir svar