Óvænt og ekki óvænt.

 það var nú ekkert óvænt byrjunin því Þórunn og Palli frá Portúgal komu og fengu sér morgunsnarl hérna hjá okkur un hádegið og við áttum gott spjall saman að venju.  

——–

Síðan skruppum við Sigurrós upp í Gufuneskirkjugarð í gær  því Sigurrós var með blóm sem hana langaði til að gróðursetja hjá pabba sínum og Ragna Björk (hér eru myndir)fór með okkkur. Við lentum reyndar í því á leiðinni að Ragna Björk fór allt í einu að kasta upp þar sem hún sat í stólnum sínum í aftursætinu. Sigurrós brá skjótt við og  keyrði inn í útskot og björgunaraðgerðir hófust. Það kom í ljós að við höfðum nánast allt sem við þörfnuðumst.  Sigurrós var á bílnum mínum og síðan einhverntíman þegar ég var að skottast með barnabörnin á Selfossi og vildi vera viðbúin blautum höndum og fleiru, þá var ég með þvottastykki í hanskahólfinu, Sigurrós var með fulla stóra kókflösku af vatni hjá blómunum í skottinu og þar sem hún hafði tekið Rögnu Björk á leikskólanum, en á föstudögum eru öll aukaföt tekin heim, þá var hún með föt til skiptanna.  Ekki spillti svo veðrið þegar við þurftum að berstrípa þessa litlu elsku við hliðina á bílnum  til þess að setja hana í ný föt. Svo var ekið að næstu sjoppui og keypt lyktareyðandi´til að hafa í bílnum.  Allt gekk þetta fljótt og vel. Skýringuna töldum við Sigurrós þá, að það var farið með leikskólabörnin gangandi ofan úr Arnarsmára niður í Kópavogsdalinn  í gær til að heimsækja leikskóla þar og síðan þurftu litlu fæturnir að trítla  upp allar brekkur aftur til baka. Svo var svo mikil sól og hiti í bílnum hjá okkur svo litla þreytta manneskjan brást svona við öllu þessu áreiti.

Hún var hinsvegar fljót að jafna sig og naut þess að trítla um í kirkjugarðinum. Sérstaklega var hún hrifin af öllum legsteinunum sem fuglar höfðu verið settir á og þurfti að ganga um og klappa þeim öllum.  Þá datt mér í hug að láta hana staldra við og hlusta á allan fuglasönginn sem var í kringum okkur. Það þarf stundum að staldra við til þess að hlusta á kyrrð og fuglasöng því annars verður þetta bara samofið öðru og maður greinir það ekkert sérstaklega.  Hún hlustaði af athygli og leit bara spyrjandi á ömmu. Síðan skottaðist hún áfram í sólinni til þess að klappa kopar- og leirfuglunum á leiðunum.

Mikið var amma ánægð með þessa dagstund.

—–

Ég var ekki eins ánægð með lok dagsins. Ég hef frá því ég kom úr bakaðgerðinni verið að fá smá verk niður í lærið, sérstaklega þegar ég stend kyrr eða er að stjákla hérna heima.  Ég var líka svolítið slæm af þessu á 17. júní.  Mér var sagt að þetta væri eðlilegt því taugin væri búin að vera svo lengi klemmd og þetta myndi smá lagast.  Ég væri ekkert búin að eyðileggja og skyldi bara halda áfram að vera dugleg að hreyfa mig. Þetta hefur bara haldið áfram að magnast og í gærkveldi fann ég sérstaklega fyrir þessu og ákvað að hringja í símanúmerið sem mér var gefið á bakskurðdeildinni til þess að fá ráðleggingar ef eitthvað kæmi upp eftir heimkomu. Ég hitti á hjúkrunarkonu sem tók mér mjög vel og ráðlagði mér eindregið að fara niður á bráðavakt og láta ganga úr skugga um að allt væri í lagi á aðgerðarsvæðinu og finna út af hverju þetta gæti stafað.  Eftir nokkra umhugsun fór ég svo niður á Bráðavaktina í Fossvogi.  Þar mátti ég bíða í rúma tvo klukkutíma ýmist standandi eða að tylla mér á ömurlegu stólana sem þar eru. Ég versnaði því um allan helming við þetta. Loksins kom læknir, eða ég held að þessi stelpa hafi verið læknir, en er alls ekki viss. Hún athugaði reflexana og hvort ég væri með dofa – það var allt í lagi með hvort tveggja, svo bað ég hana um að kíkja á sárið og athuga hvort það væri ekki í lagi og hvort það væri mikil bólga í kring. Sárið hélt hún að væri allt í lagi en það væri svolítil bólga.  Ég spurði hana hvort ég gæti ekki fengið sprautur í þetta, kannski vöðvafesturnar því mér finndist þetta jafnvel koma frá þeim.  Nei það var ekki inni í myndinni ég yrði bara að taka verkjatöflur og tala svo við lækninn sem skar mig eftir helgi. " Hver skar þig?"  " Aron" svaraði ég. Svo spurði hún hvort ég vissi á hvaða liðbili aðgerðin hefði verið gerð. Ég spurði hvort hún sæi það ekki á skýrslunni, en hún afsakaði sig eitthvað og sagðist ekkert vera með skýrsluna og þar við sat. Svo sagði hún  " Hver skar þig aftur heitir hann Arnór?"   " Nei hann heitir Aron"  svaraði ég. Þá spurði daman, "Hvers son er þessi Aron?"   Á þessum tímapunkti var ég orðin nokkuð viss um að þetta væri ræstingakonan en ekki læknir á sama spítala og skurðlæknirinn sem hefur starfað þar í a.m.k. 20 ár.

 Ég spurði hana að lokum hvað hun héldi að það væri sem ylli þessum verk og þá sagði hún að sér dytti helst í hug að þetta væri bara annað brjósklos og með það fór ég heim og tók samviskusamlega 2 Parkodin Forte eins og hún  (læknirinn eða ræstingakonan) hafði fyrirskipað og ég svaf sæmilega í nótt en fannst ég í einhverju vímuástandi þegar ég vaknaði í morgun svo ég tók ekki aftur tvær töflurnar í morgun og tvær um miðjan daginn eins og mér hafði verið fyrirskipað.  Ég þoli nefnilega frekar að vera með slæma verki en í vímuástandi.  Ég tek kannski aftur tvær fyrir nóttina.

Ég vona að það sé ekki rétt að um annað brjósklos sé að ræða. Ég vissi reyndar í upphafi að það væru þrjú þarna á svæðinu en eitt var áberandi stærst og við það var gert. Nú er bara að krossa fingur og helst tærnar líka.

Ég bít bara á jaxlinn og legg ekki meira á dagbókina mína í bili.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Óvænt og ekki óvænt.

  1. Hvurslags bjánabrók vinnur þarna! Vonandi er þetta ekki eins alvarlegt og það hljómar. Við hér í bláa húsinu sendum góða kveðju og viljum að þér BATNI.

Skildu eftir svar