Svo gaman að vera til.

Enn ein vikan hefur liðið af þessu yndislega sumri. Ég man eftir ýmsum góðviðrisdögum í gegnum tíðina, en ég man ekki eftir því á allri ævi minni að hafa upplifað svona langan kafla með slíku góðviðri sem við höfum fengið að upplifa hérna á suðvesturhorninu í sumar. Ég má heldur ekki gleyma því hvað við vorum heppin með vikuna okkar á Egilsstöðum.

Núna um helgina vorum við ásamt dætrunum og þeirra fjölskyldum (nema Oddi Vilberg, sem var á austurlandinu),  í sumarbústað á Flúðum.

Tilefni þess að við vorum á Flúðum, var að við vorum á leið í brúðkaup sem haldið var í Félagsheimilinu að Flúðum á laugardagskvöldið.  Arnar Már frændi stelpnanna minna (bróðursonur Odds heitins) og Ásta hans voru gefin saman við Fúlalæk á mörkum Skaftafellssýslu og Rangárvallasýslu fyrr um daginn þar sem nánasta fjölskyldan var viðstödd en svo var veislan þarna á Flúðum um kvöldið.  Það var mikið fjör í veislunni og í restina komst ég að því að ég er komin í tjúttformið aftur svo nú eiga allir vegir að vera færir til að stunda fyrri líkamsrækt og hafa gaman.
Það er aldrei nein lognmolla í kringum tengdafólkið mitt og svíkur aldrei að skemmta sér með þeim.

Við vorum svo heppin að Karlotta var með okkur og hún passaði Ragnar litla bróður sinn og Rögnu Björk litlu frænkuna sína á meðan við fórum í veisluna. Ég dáist að því hvað það gekk vel hjá henni að vera með litlu órabelgina þriggja og tveggja ára – bæði mjög sjálfstæð og ákveðin. Við fórum í veisluna klukkan sex um kvöldið svo hún þurfti að gefa þeim að borða og koma þeim í rúmið, þau vöknuðu svo bæði upp seinna um kvöldið en mín kom þeim bara aftur í svefngírinn og geri aðrir betur.
Ég ætlaði nú í upphafi ekki að stoppa lengi í veislunni, en fara og hjálpa Karlottu að passa en þar sem hún stóð sig svona vel og allt var í himnalagi, þá það varð nú úr að við komum ekki heim fyrr en klukkan að ganga tvö um nóttina og yngra fólkið nokkru síðar.

Laugardagurinn sjálfur var líka mjög skemmtilegur. Við Haukur fórum um morguninn að kíkja á bústað sem er á leíðinni að Hruna, en það er bústaður sem við eigum kost á að leigja, þ.e. þegar hann er laus. Eftir hádegið fóru þeir Magnús Már og Haukur til þess að skoða Laxárgljúfur, en við hin ákváðum að skreppa aðeins í búðina. Þegar við komum inn í bæinn varð mér nú að orði "Hvað er eiginlega mörgum boðið í brúðkaupið". Það var bara hvergi hægt að leggja bíl og allt krökkt af fólki.  Loksins náðum við þó að pota bílunum einhversstaðar í vegkanti og þegar við komum út þá heyrðum við óm af gömlum slögurum.  Við gengum á hljóðið og viti menn Bylgjulestin var þarna komin og hélt uppi fjöri í þessari einstöku sumarblíðu og 20°hita.  Magni var að syngja þegar við komum og síðan kom Raggi Bjarna með "Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig". Þarna var sem sé sannkölluð útihátíðastemning og fullt af léttklæddu fólki í kring sem dillaði sér eftir músikkinni og tók undir í söngnum.  Það var erfitt að slíta sig í burtu en við máttum ekki vera svo lengi að við næðum ekki að koma börnunum aftur í bústaðinn og hafa okkur til fyrir veisluna sem átti að byrja klukkan sex.

Svo má ekki gleyma því að á miðnætti á laugardagskvöldið þá átti Sigurrós 30 ára afmæli svo auðvitað var afmælissöngurinn sunginn fyrir hana.

Þetta var allt svo skemmtilegt að ég gæti haldið áfram að skrifa lengi enn, en þar sem ég vil ekki að færslurnar mínar verði of langar þá ætla ég að láta hér staðar numið og þakka öllum sem við vorum með í bústaðnum og öllum sem voru með okkur í veislunni og sérstaklega auðvitað brúðhjónunum Arnari og Ástu fyrir þessa yndislegu helgi.  (Váá, er þetta kannski farið að hljóma eins og á Oscars verðlaunaafhendingu?)
Nú kveð ég þig kæra dagbók. Ég á eftir að fletta upp á þessu sjálf seinna, eins og ég geri svo oft til að skoða gamlar færslur og skemmta mér yfir minningunni.

Myndir júlímánaðar eru komnar inn hér (austurferðin og aðrar júlímyndir).

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Svo gaman að vera til.

  1. Svanfríður says:

    Maður verður glaður að lesa þennan pistil:)Takk fyrir það elsku Ragna.

Skildu eftir svar