Á Snæfellsnesið.

Það gerðist nokkuð óvænt í síðustu viku að ég var bara allt í einu búin að kaupa hálft fellihýsi. Mig hefur lengi dreymt um slíkt til þess að geta skoðað landið frjáls eins og fuglinn fljúgandi og allt í einu varð þetta bara að veruleika. Guðbjörg og Magnús Már eiga heiðurinn að því, þau sáu nefnilega auglýsingu um notað fellihýsi og drifu okkur með til þess að skoða. Það er svo skemmst frá því að segja að ég stóðst ekki mátið og keypti helminginn á móti Magnúsi og Guðbjörgu.

Það var svo ákveðið að fara við fyrsta tækifæri og prufa gripinn og það gerðum við. Í ferðina fórum við Haukur, Guðbjörg, Magnús Már og Ragnar litli. Veðurspá fyrir Snæfellsnesið virtist koma best út svo þangað var ferðinni heitið. 

þegar við komum inn á Snæfellsnesið þarna á fimmtudagskvöldið þá leist okkur hinsvegar ekki betur á blikuna en svo að við stoppuðum við Vegamót í ausandi rigningu og svartur himininn yfir okkur. Við héldum þar smá fund til þess að ákveða hvort við ættum að fara aftur heim eða halda áfram yfir á Stykkishólm.  Þar sem við vildum ekki vera einhverjir aumingjar sem kæmu heim aftur í uppgjöf þá var auðvitað haldið áfram. Við komum svo fellihýsinu upp fljótt og vel, en manni minn hvað við höfðum fyrir því að tjalda fortjaldinu. Við snerumst með það í hringi í rokinu á meðan við vorum að finna út hvaða súlur áttu að vera á hverjum stað.  Að lokum var svo allt komið upp og við höfðum hina bestu vistarveru til þess að láta okkur líða vel í.

Daginn eftir var veðrið mun betra þó það værii nokkuð svalt miðað við júlímánuð (það var kuldalægð yfir landinu og snjóaði í fjöll á hálendinu og víða ofaní byggð).  En það var bjart og við ákváðum að nota daginn til þess að fara hringferð um nesið eftir að hafa skoðað Eldfjallasafnið um morguninn. Það var skemmtilegt að aka í gegnum Grundarfjörð því þar var bæjarhátíð í gangi og bærinn skrýddur mismunandi litum eftir hverfum. Þegar við komum að Gufuskálum þá heilsuðum við upp á Þór systurson minn sem þar býr og starfar. Við fórum síðan að Arnarstapa og röltum þar um.

Það er tvennt sem þessi töffari stenst ekki.
Mótorhjól og fornbíla og þarna hljóp á snærið hjá honum.

stykkish1.jpg

Laugardagurinn heilsaði okkur með sólarblíðu svo við skelltum okkur í sund og röltum síðan um bæinn sem er alveg einstaklega fallegur eftir að hafa verið allur tekinn í gegn. Um kvöldið grilluðum við svo. Yndislegt veður allan daginn.

stykkish2.jpg

 Við skoðuðum Vatnasafnið, en þaðan er útsýni yfir bæinn og fjörðinn.

 stykkish3.jpg

Á sunnudaginn var svo pakkað saman og við Haukur héldum eftir Skógarströndinni heim á leið en þau hin fóru yfir á Mýrarnar.

 Þessar myndir tók ég á Skógarströndinni.

skogarstrond.jpg

Við vorum mjög ánægð með ferðina og dvölina í fellihýsinu og hlökkum til frekari ferðalaga. Það má segja að það hafi verið gott að fara í svona kulda og roki í fyrstu ferðina því nú vitum við að það er hægt að láta sér líða vel og nægur hiti þó kalt sé úti. 

Ég er alveg heilluð af þessum fallega bæ Stykkishólmi og ætla við fyrsta tækifæri að fara þangað aftur.

Myndirnar sem ég tók í ferðinni eru hér

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Á Snæfellsnesið.

  1. Stefa says:

    Dásamlegt!
    Mikið er dásamlegt að skoða fallegu myndirnar þínar og lesa svona skemmtilega frásögn elsku Ragna 😀 Til hamingju með þinn hlut í fellihýsinu – það hlýtur að vera lúxus að geta lagt svona land undir fót öðru hvoru með híbýlið með sér.

  2. þórunn says:

    Þetta hefur verið hin besta ferð þrátt fyrir slæmt veðurútlit fyrst. Myndirnar þínar sýna svo vel hvað er fallegt í Stykkishólmi. Til hamingju með fellihýsið, það er örugglega fínt að ferðast með þannig hús í eftirdragi.
    Ragna mín ég er komin með nýja heimasíðu, sú gamla lokaði á mig. Þú mátt gjarnan setja nýju slóðina mína í „Bloggin sem ég skoða reglulega“ slóðin er http://austurkot.blogspot.com

  3. Rannveig Erlingsdóttir says:

    Fallegar myndir.
    Halló Ragna mín.
    Orðið of langt síðan ég hef lagt orð í belg hjá þér.
    Var að skoða nýjustu myndirnar og mikið eru þær fallegar. Og ég tala nú ekki um myndina af mótorhjólatöffaranum hí hí ;o) hún er sko flott.
    En ég var að spá, ertu með eitthvað netfang þar sem ég get sent þér nokkrar línur. Ef svo er þá máttu svara mér í mitt netfang.
    Var bara að oppna littla snyrtiaðstöðu hérna í Barmahlíðinni og er að láta vini og vandamenn fá smá upplýsingar um það.
    Alltaf gaman að komast í uppskriftirnar þínar og lesa hvað þið eruð að bralla.
    Bestu kveðjur, Rannveig Erlings.

  4. Katla says:

    Til hamingju með helming í fellihýsi. Það er heilmikill munur á að norpa í tjaldi í rigningu eða hafa aðgang að fellihýsi.
    Mér þykir mjög vænt um Snæfellsnesið; ekki bara er ég ættuð þaðan, hef einnig dvalið þó nokkur sumur hjá systur minni víðs vegar um nesið. Gaman að skoða myndirnar þínar.

  5. Ragna says:

    Þakka ykkur öllum fyrir kveðjurnar. Rannveig, netfangið mitt er ragna@betra.is

  6. Fallegt, í orðsins fyllstu merkingu. Kærust í nýja fellihýsið og njótið vel.

  7. Svanfríður says:

    TIl hamingju með fellihýsakaupin.Það hlýtur að vera gaman að ferðast um landið þannig og þurfa aldrei að hugsa um gistingu. Njótið:)

Skildu eftir svar