Þankar í byrjun ágúst.

Ekki hefði mig grunað að heilt sumar hér á Íslandi gæti verið svo sólríkt að það væri bara ekki hægt að vera inni að pikka inn á tölvuna sína eða annað og á mörkunum að maður nenntii yfirleitt að gera nokkur inniverk.

Af því ég treysti nú alltaf á forsjónina,  þá er ég þess fullviss að hún hefur séð til þess að við fengjum næga birtu í sumar til þess að bægja burtu svartnættinu sem hvílt hefur yfir þjóðarbúinu okkar síðan s.l. vetur.  Vitanlega hverfa ekkert vandamálin þó sólin skíni, en vonandi verðum við betur undir veturinn búin ef við náum að að treina okkur birtu sumarsins eitthvað fram á næsta vetur.

Ég hef ekkert sett inn í dagbókina frá því við fórum á Snæfellsnesið og við höfum svo sem ekki farið mikið síðan.  Um verslunarmannahelgina tilheyrðum við Innipúkahópnum þó það væri fjærri lagi að við værum mikið innandyra. 
Við skruppum þó eitt kvöldið í bíó. Fórum héðan beint út í Smárabíó og báðum um tvo miða á Harry Potter.  Stúlkan í miðasölunni horfði á okkur eins og við værum viðundur og sagði " Hún er ekkert sýnd hér". Úps auðvitað héldum við að allar myndir væru sýndar í Smárabíói. Ég flýtti mér að spyrja hvort það væri ekki verið að sýna einhverjar góðar myndir hjá þeim, og þá nefndi hún "Karlar sem hata konur". Einmitt mynd sem við höfðum líka ætlað að sjá og ekki sáum við eftir því að velja að sjá þessa mögnuðu mynd. Ég mæli með því að þeir sem ekki hafa séð hana drífi sig.

Hér er Karlotta mín í Sælukoti.

karlotta01.jpg

Á sunnudeginum um verslunarmannahelgina þá skruppum við austur yfir fjall, drukkum kaffi í Kaffi Krús á Selfossi og héldum svo áfram austur á Rangárvelli. Áfangastaðurinn var  Sælukot, en tengdafólkið mitt, föðurfólk stelpnanna minna sameinast alltaf í gamla góða Sælukoti um verzlunarmannahelgar. Dæturnar voru þar báðar þegar við komum,  Guðbjörg í útilegu með sína fjölskyldu og Sigurrósar fjölskylda í dagsferð eins og við. (myndir hér)

Á þriðjudaginn var síðan heilmikil samkoma hjá minni fjölskyldu í Elliðavatnsbænum þar sem við hittumst öll niðjar mömmu og pabba. Mér fannst mjög skemmtilegt að allir komu nú saman því við frænkurnar hittumst alltaf reglulega einu sinni eða tvisvar á ári, en frændur, makar og börn hafa ekkii hittst öll saman fyrr en núna.
Elsku systir, mágur, dætur, barnabörn, frænkur, frændur og fylgifiskar. Þúsund þakkir fyrir skemmtilega samverustund. Gerum þetta að árlegum viðburði hér eftir. (myndirnar eru hér)

Það var vinsælt að skoða gömlu myndaalbúmin hennar mömmu og
margt rifjaðist upp við þá skoðun.

fjolsk09.jpg

Í gærmorgun var síðan mjög notalegt að fara ásamt Ingunni Ragnars í heimsókn til Birgit vinkonu okkar. þar vorum við í góðu yfirlæti og sátum úti á palli í sólinni með allt blómskrúðið í kringum okkur. 

Já sumarið hefur verið svo einstaklega gott, það er bara nauðsynlegt að staldra öðru hvoru við og leyfa sér að taka eftir því og vera þakklátur fyrir að fá að njóta.

Hvers vegna skyldum við leita
hamingjunnar í fjarlægðinni
þegar hún er hérna rétt fyrir
framan tærnar á okkur.

Góða helgi allir nær og fjær.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Þankar í byrjun ágúst.

  1. Sigurrós says:

    Það er alltaf svo gaman að skoða myndirnar þínar. Reglulega skemmtilegar, bæði frá verslunarmannahelginni og af litla ættarmótinu við Elliðavatn 🙂

Skildu eftir svar