Spuruli næturgesturinn.

Um síðustu helgi fengum við næturgest sem ekki hefur gist hjá okkur lengi. Þessi næturgestur er bara þriggja ára síðan í vor, en hann þarf allt að vita og fá skýringar á öllu. Oftar en ekki kemur hann með eitthvað í höndunum og spyr hvað þetta sé, þá reynir amma að skýra það út á sem einfaldastan hátt og heldur sig vera sloppna við nákvæmar skýringar. Amma er hinsvegar ekkert sloppin því þá koma spurningarnar – já en af hverju er þetta svona? Geturðu ekki opnað og kíkt inní og séð hvað gerist. – Þegar amma maldar í móinn og segir að það sé ekkert hægt að opna þetta, þá segir sá stutti, Jú bara með skrúfjárni.
Amma átti t.d. í miklum rökræðum þennan laugardag út af lítilli dansmær úr plasti sem á að dansa í hringi en var orðin heldur slöpp og haggaðist varla. Minn sagði þá að það þyrfti bara að skipta um batterí. Hann fékk þá skýringu að það væru engin batterí í dansmeyjunni og hún væri heldur ekki trekkt upp svo það væri ekkert hægt að gera.  Þá rigndi spurningunum  yfir ömmu um það hvernig hún hefði þá getað dansað og af hverju ….og af hverju…. þangað til ömmu var farið að svima af því að reyna að finna svör, en auðvitað vissi amma ekkert um það hvað hafði drifið  blessaða dansmeyjuna áfram og varð að viðurkenna fávisku sína. 

Þó amma eigi ekki svör við öllu, þá hefur hún sko ekkert á móti slíkum næturgestum.

Hér er litli snúðurinn hann Ragnar Fannberg kominn upp í rúmið og
er að kíkja á bók fyrir svefninn.

naeturgesturinn.jpg

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Spuruli næturgesturinn.

  1. Katla says:

    Þó þig svimi og hafir ekki alltaf svör a reiðum höndum, þá grunar mig þú hafir mikið gaman af. Áreiðanlega skýr og flottur strákur hann nafni þinn: )

  2. Anna Bj says:

    Æ hvað hann er sætur, orðinn svo stór og greindarlegur. Ekki alltaf gott að finna svör við öllu!

Skildu eftir svar