Menningarhelgi.

Ég verð nú að byrja á því að dásama veðrið síðustu daga því það er nógu oft sem maður er að tuða um hvað veðrið er leiðinlegt.  Já, það var bara sannkallað vor í lofti í gær. Ég byrjaði nú daginn á því að fara í klukkutíma göngutúr upp úr klukkan níu. Reyndar var sólin ekki farin að hita mikið þá en hún bætti það upp þegar líða fór á morguninn. Við systurnar fórum saman í Blómaval til að kaupa mold og þessháttar til þess að skipta á blómunum hjá okkur. Ég hafði líka á hyggjur af því hvað túlipanarnir í kerinu fyrir framan húsið hjá mér  eru komnir langt upp. Ég hélt kannski að ég þyrfti að breiða eitthvað yfir þá ef það fer að koma meira frost. Mér var sagt að hafa engar áhyggjur af því en ég hef þær nú samt -svona smá. Ef einhver sem les þessar línur er kunnugur svona vandamáli og getur gefið góð ráð, þá endilega leggið orð í belg.


Menningin:


Á föstudagskvöldið drifum við Haukur okkur á Færeyjakvöld hjá Samkór Selfoss en það var haldið í samkomuhúsinu Stað á Eyrarbakka. Þetta var mjög skemmtilegt kvöld, mikill söngur, allt á færeysku auðvitað og ýmsar frásagnir. Ung stúlka Guri kom með gítarinn sinn og söng gullfallega. Það átti að fá Eivöru en hún var ekki á landinu. Maritza Paulsen var veislustjóri og sá um veitingar en það var hlaðborð með færeyskum mat. Mjög gaman að smakka á því öllu. Ég var nú á báðum áttum hvort ég ætti að smakka á kolsvörtum pönnukökum með rúsínum, ekki sízt þegar ég heyrði að þetta væru blóðpönnukökur. Ég lét mig nú samt hafa það (alltaf að prufa áður en maður dæmir). Þegar búið var að dýfa þessum pönnukökum í sírópið sem fylgdi með þá reyndist þetta herramannsmatur. Ég verð nú að segja að ég var ekkert yfir mig hrifin af öllu þessu vindþurrkaða og grafna kjöti (m.a.skerpukjötinu) en það var heldur ekki vont. Allavega er mjög gaman að hafa smakkað þetta alltsaman.  Nú, eftir matinn var vitaskuld stiginn dans og byrjað á vikivökum og síðan tóku gömlu dansarnir og tjúttið við. Þessu lauk svo klukkan tvö eftir frábæra skemmtun.


Við tókum laugardaginn snemma og byrjuðum á löngum göngutúr og komum svo heim í morgunkaffið.  Haukur stakk svo upp á því að við færum að skoða Draugasafnið á Stokkseyri. Það er 45 mínútna gönguferð í gegnum safnið með því að hlusta á allar sögurnar sem maður fær með sér á geisladisk. Þetta er þannig byggt upp að maður gengur inn í númerað rými og þar er hlustað á þá sögu sem við á og síðan er manni sagt að ganga inn í næsta rými og þannig koll af kolli.Það eru nú ekki allir sem nenna að hlusta á sögurnar til enda og ryðjast áfram með hrópum og köllum, alveg „týpískir“ stressaðir íslendingar að flýta sér við þetta eins og annað. Okkur fannst Þetta bara gaman, en mér finnst nú ansi dýrt að borga 1.400 krónur á manninn að ganga þarna í gegn???  Við ætluðum svo að fá okkur kaffi og vöfflur í kaffistofunni þarna en það var svo mikil reykjarsvæla að við gátum ekki hugsað okkur að setjast þar niður en fórum bara út í Fjöruborðið og fengum okkur kaffi þar.


Sunnudagurinn rann upp með sól og blíðu. Við fórum í okkar daglega göngutúr og svo komu Guðbjörg og krakkarnir hjólandi til okkar í morgunkaffið. Við settumst síðan út á pall í sólina og fórum svo að taka okkur saman til að fara til borgarinnar. Við heimsóttum fyrst Sigurrós og Jóa og fórum síðan í Hafnarfjörðinn því Haukur átti eftir að skipta um föt til að fara í í leikhúsið um kvöldið. Við sáum svo „Öfugu megin uppí“ í Borgarleikhusinu en við áttum gjafamiða síðan um jól. Þetta var bráðskemmtilegt og fínt að ná í síðustu sýningu á þessum farsa.  Ég dreif mig svo bara austur eftir sýninguna því Haukur var að byrja vinnusyrpu, bara vinna/sofa næstu 5 daga.


Þetta átti nú ekki að verða svona langt hjá mér en það kemur fyrir að það tegjist á þessu þegar maður skrifar bara einu sinni í viku eins og ég virðist farin að gera svona að mestu leyti.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Menningarhelgi.

  1. afi says:

    Þetta hefur verið viðburðarík helgi hjá þér. Færeyingar eru hið skemmtilegasta fólk. afi hefur farið til Færeyja og smakkað á skerpukjöti og hvalspiki.
    Ef þú hefur áhyggjur af túlibönunum hjá þér gætirðu sett grenigreinar yfir þá ef gerði hörku gadd. Nú eða þá akríldúk.
    Annars verður náttúr4an að hafa sinn gang.

Skildu eftir svar