Skemmtilegur misskilningur.

Fyrir síðustu helgi var hringt til mín frá Reykjalundi og mér tilkynnt að það væri komið að mér í meðferð þar og ég gæti komist að 1. september ef ég gæti komið þá.  Þar sem ég átti m.a. tíma hjá tannlækni og fleira sem ég var búin að fastsetja, þá gekk þetta ekki með svona litlum fyrirvara. Sú sem talaði við mig heitir Hafdís og hún sagðist myndu hringja aftur og staðfesta annan tíma.

Í morgun um tíuleytið hringdi svo síminn. Ég svaraði og konan sem hringdi heilsaði og sagði að þetta væri Hafdís. Hún afsakaði hvað hún hefði hringt snemma, en ég sagði það auðvitað í lagi því ég vaknaði alltaf snemma sjálf. Ég  beið svo eftir að heyra hvenær ég ætti að koma í Reykjalundardvölina.  Hafdís sagðist hafa verið að hugsa til mín og spurði hvort ég væri nokkuð upptekin um hádegið. Henni hefði dottið í hug að athuga hvort ég væri ekki til í að koma hérna uppeftir og fá mér súpu með sér í hádeginu.  Ég velti því fyrir mér hvort þetta væri einhver ný samskiptatækni hjá Reykjalundi, að bjóða þeim sem eru að koma til dvalar uppeftir til að spjalla við þá yfir mat í hádeginu. Mér fannst það nú frekar undarlegt að eiga að sitja þar í mötuneytinu í hádeginu og láta taka af sér sjúkraskýrslu, en óneytanlega væri þetta mjög "kammó".

Ég var búin að bjóðast til að sækja Sigurrós í Hlíðaskóla upp úr klukkan hálf þrjú og keyra hana í sjúkraþjálfun, svo ég stundi því upp að ég þyrfti bara að vera komin niður í Hlíðar aftur um hálf þrjú.   Ég hafði áhyggjur af því að það tæki nú nokkurn tíma að aka úr Mosfellsbænum aftur og ef þetta viðtal drægist eitthvað á langinn myndi ég kannski svíkja það sem ég hafði lofað Sigurrós.
Þá sagði Hafdís að hún væri í fríi þessa viku og hefði nú oft verið að hugsa til mín en í morgun hafi sér dottið í hug að elda súpu og kalla á mig að borða með sér. Loksins fór nú að rofa til í ruglaða kollinum á mér.  Þetta var auðvitað hún Hafdís sem ég kynntist hérna á heimasíðunni minni, en hún býr hérna fyrir ofan mig í Salahverfinu og þetta "að koma hérna uppeftir" var auðvitað að skokka upp göngustíginn sem er á milli okkar, en ekki að keyra uppeftir að Reykjalundi. 

Ég var nú ekki lengi að þiggja þetta heimboð og fékk alveg sérstaklega góða fiskisúpu hjá henni í hádeginu og heimabakað brauð beint úr ofninum með.  Þó við höfum ekki hittst nema augnablik tvisvar sinnum áður, þá spjölluðum við saman eins og gamlar vinkonur.

Ég þakka þér Hafdís mín kærlega fyrir þessa ánægjulegu stund sem við áttum saman og mikið góða mat. Já, þetta var sko skemmtilegur misskilningur sem ég tapaði ekki á.

Frá Hafdísi á Reykjalundi hef ég ekki heyrt aftur, en vonandi hringir hún einhvern næsta dag og boðar mig til dvalar á Reykjalund þann 7. september eins og hún reiknaði svona frekar með að yrði dagsetningin.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Skemmtilegur misskilningur.

  1. Svanfríður says:

    Ég hefði hlegið mig máttlausa ef þú hefðir ekki áttað þig og keyrt alla leið á Reykjalund og ekkert svo skilið í afhverju þín beið engin hádegismatur:)

  2. Hafdís Baldvinsdóttir says:

    Takk fyrir síðast
    Sæl Ragna og takk kærlega fyrir gærdaginn og yndislegu rósirnar sem þú færðir mér.
    Hafðu það sem allra best.

    Kær kveðja
    Hafdís Baldvinsd.

Skildu eftir svar