Hvílíkar pælingar – tvisvar á ári.

Ég er svo sérvitur, að ég pakka vetrarfötunum mínum niður í byrjun sumars og tek upp sumarfötin mín. Í morgun var ég að laga til í skápunum mínum, pakka niður sumarfötunum og taka upp haust og vetrarfötin. Ég fór að velta því fyrir mér, að hérna áður fyrr gerði ég þetta aldrei. Ástæðan er held ég sú, að sumurinn voru einfaldlega ekki það hlý að það tæki því að koma sér upp einhverjum sérstökum sumarfötum. Þá var bara úlpan notuð jafnt sumar sem vetur og varla að fólk sæist á peysunni úti, hvað þá léttklæddara en það. Nei, það voru bara mest notuð heilsársföt í "den". Kannski valdir aðeins ljósari litir að sumrinu en lengra náði það nú ekki.  Svo var bara ekki búið að safnast eins mikið af fötum hjá manni í þá daga.

Eitt er það, sem gerir mér alltaf svo erfitt fyrir í þessum fataskápstiltektum mínum – ég á svo erfitt með að losa mig við gömul föt, sérstakilega ef ég hef eignast vönduð föt úr góðum efnum. Ég ákvað að hætta nú að geyma elstu fötin mín því það væri ekkert vit í að láta þetta vera að taka pláss í skápum hjá mér. Ég fór að kíkja í stóra renniláspokanum eina ferðina enn og skoða innihaldið – það er alltaf eitthvað úr þessum poka sem ég tek í notkun árlega. Ég er alltaf í sömu fatastærðinni svo ég hef ekki þá afsökun að fötin séu orðin of lítil eða of stór, en er það ekki bilun að vera enn að nota sumt af fötunum sem ég gekk í í vinnuna árum saman, en ég hætti að vinna 1997.

Þegar ég var í tiltektinni í morgun tók ég enn og aftur fram flottu buxnapils-dragtina sem ég átti þegar Sigurrós fermdist. Þetta var ein af fáum dýrum og vönduðum flíkum sem ég hef eignast um ævina. Ég sá fyrir mér hvað ég var alltaf rosalega flott í þessari dragt og fékk að heyra hvað hún væri falleg. Ég ákvað, þar sem, ég stóð með hana í höndunum í morgun, að máta hana nú og sá hvort alla vega jakkinn væri ekki bara fínn.  – Nei – jakkinn var hreint ekkert fínn allt of breiður á herðarnar og herðapúðarnir – manni minn.  Pilsið allt of sítt og vítt.   Hvernig stendur á að ég var svona flott í þessu?  Ég tók gamalt myndaalbúm og viti menn ég fann mynd af mér úr fermingunni hennar Sigurrósar þar sem ég er í þessari dragt og ég er bara alveg svakalega fín.  Ég þurfti ekki meiri sannanir – svona flottri dragt var einfaldlega ekki hægt að henda. það hlyti að koma aftur svona tízka og þá væri gaman að draga þetta upp ásamt öllu hinu sem er frá þessum tíma.  Það fór því allt ofaní pokann ENN EINU SINNI.

 sjo_rkj_ferming22.jpg

Eina breytingin sem ég ætla hinsvegar að gera núna á meðan ég bíð eftir því að tízkan frá 1985 komi aftur, er að ég ætla að fara með þessar plastumbúðir út í bílskúr.  Vonandi gleymast þær svo þar svo ég lendi ekki í þessum sömu vangaveltum  einu sinni enn.

Ég get ekki skannað inn myndir hjá mér, en ég ætla að biðja Sigurrós að skanna inn þessa mynd af mér í fínu dragtinni – ótrúlegt hvað ég sýnist flott í þessu á myndinni,  en þegar ég skoðaði mig í sömu flíkinni í speglinum í dag var ég alveg hörmung.  Getur það verið að dragtin sé sem sagt ennþá svona fín en innihaldið sé farið að hrörna.  

– Ekki meiri pælingar í bili. Sólin skín og nú ætla ég að njóta hennar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

10 Responses to Hvílíkar pælingar – tvisvar á ári.

  1. Sigurrós says:

    Jæja, er búin að skanna inn myndina og senda þér. Og mamma, ekki hafa áhyggjur, það eru augljóslega fötin okkar en ekki við sem standast ekki tímans tönn… 😉 A.m.k. vissi ég ekki alveg hvort ég ætti að hlæja eða gráta þegar ég skoðaði blessað fermingarbarnið á myndinni… 🙂 hahahahahaha

  2. Ragna says:

    Ég gleymi aldrei þegar þú valdir þennan kjól í Lauru Ashley og sást ekkert annað. Auðvitað varst þú svo sætust af öllum – það fannst mömmu a.m.k.

  3. Katla says:

    Þið eruð stórfínar mæðgurnar á þessari mynd!
    Spurning hvort Sigurrós eigi enn fermingarkjólinn, svona þegar kemur að því þú getur farið að ganga aftur í dragtinni Ragna: )

  4. Guðbjörg says:

    Ég verð nú aðallega að segja hvað ég dáist að hárgreiðslunni, manni minn. Held bara að hin dóttirin hafi líka verið með permanent á þessum tíma. Guðbjörg

  5. Ragna says:

    Sigurrós er sko ekki með permanet og hefur aldrei verið en hárið á henni var bara svona rosalega mikið og krullað. Mamman var hinsvegar alltaf með permanet á þessum tíma.

  6. Sigurrós says:

    En þetta eru nú ekki náttúrulegar krullur á þessari mynd, hárið var samviskusamlega krullað á Hárgreiðslustofunni Kambi fyrir ferminguna 🙂

    Kjólinn á ég enn, en ég held ég þyrfti næstum því að gangast undir skurðaðgerð ef ég ætti að passa í hann aftur! 😉

  7. Veistu, þið eruð bara dásamlegar á myndinni, glaðar og kátar. Fötin og tískan, ja det var i den tid. Geymið fötin því allt fer þetta í hringi. Kærust í bæinn

  8. Katla says:

    Hver veit Sigurrós, eins og tískan fer nú í marga hringi, nema dóttir þín muni vilja klæðast kjólnum einn daginn: ) Fallegur er hann altjént. Og dóttir þín líka.

Skildu eftir svar