Þjóðarskútan og daglegt líf.

þjóðarskútan virðist sigla áfram stjórnlaust sem fyrr og farþegarnir orðnir illa haldnir af kvíða og hræddir um að skútan eigi ekki eftir að ná landi.  Stjórnendurnir eru ráðalausir, en samt sem áður þá fá farþegarnir engu um það ráðið hvað taka skuli til bragðs þó svo að margir þeirra lumi á góðum ráðum til bjargar. Maður hræðist það mest, að skútan sú eigi hvergi eftir að ná landi. Veltingurinn er orðinn slíkur að varla er stætt og ekki lengur hægt að varast sjóveiki. Eina vonin er orðin sú, að eitthvert stórt erlent skip með reyndum skipstjórnarmönnum sem kunna til verka á slíkum siglingum, eigi leið um hið úfna haf og komi skútunni okkar til hjálpar.  Þeir taki að sér að sigla henni fyrir okkur að landi og hlúi að okkur þar til við náum aftur kröftum og getu til þess að sigla skútunni okkar áfram.  
Þeir sjái einnig til þess, að þeir sem takast á hendur það ábyrgðarmikla verkefni að sigla skútunni áfram á áfangastað, hafi lært að sigla skútunni og haga seglunum eftir vindi. Þeir hafi  rétt siglingakort og kompás til þess að sigla eftir og  ekki síst þá hafi þeir komið sér saman um áfangastaðinn.

————————–

Við lögðum upp í þessa siglingu eftir mikið húllumhæ og gleðskap. Fyrri stjórnendur skútunnar höfðu ekkert tekið eftir því í öllum gleðskapnum, að það var búið að hirða allar vistir úr skútunni og nokkur segl  voru rifin. Fjörið var bara svo rosalega mikið.
Þegar þetta komst upp voru þeir umsvifalaust teknir höndum, bundnir og geymdir neðan þilja.  Þeir sem það gerðu töldu sig bjargvætti og töldu okkur trú um að þeir væru miklu betri stjórnendur skútunnar en hinir. Þeim var trúað og þeir tóku við stýrinu. Undirbúningur þeirra var enginn og Þeir gleymdu alveg að það þurfti að hafa sjókort og kompás og vissu bara ekkert hvernig ætti að stjórna svoa stórri skútu. Þeir skildu heldur ekki af hverju farþegarnir voru að kvarta yfir því að engar vistir væru um borð.

Það endar líklega með því að við farþegarnir tökum bara sjóveikipillu – helst fleiri en eina, kannski bara allt úr glasinu  og reynum að hætta að fylgjast með því hvað er að gerast. það virðist nefnilega ekkert stórt skip vera nálægt til þess að hjálpa til við stjórnina.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Þjóðarskútan og daglegt líf.

  1. þórunn says:

    Skútan
    Þú kannt að koma orðum að hlutunum Ragna mín, þetta er hverju orði sannara. Ætli við verðum ekki að fara að auglýsa eftir skipstjóra með próf úr Stýrimannaskólanum?

Skildu eftir svar