Að takast á við minningar.

Mikið var það nú skrýtin tilfinning á mánudagsmorguninn, að aka hérna heim að Reykjalundi, þessa leið sem ég ók nærri því daglega í mörg ár þegar ég var að heimsækja Odd heitinn eða sækja hann til að fara í helgarfrí. Stúlkan í afgreiðslunni var sú sama og vann hérna þá, og hún var sú fyrsta sem þekkti mig og heilsaði, síðan kom í ljós að ég er á deildinni sem Oddur var á, en sú deild hefur bara flutt af annari hæð á þriðju.  Þær hafa svo verið að heilsa upp á mig hjúkkurnar sem enn starfa hérna. Mér finnst ótrúlegt minni þeirra – sérstaklega að muna eftir mér, sem bara var aðstandandi, en hef aldrei dvalið hér sjálf fyrr en núna. 
Þetta er ósköp notalegt, en á hinn bóginn átta ég mig á því núna, hvað ég hef í raun verið að burðast með stóran pakka á sálinni í öll þessi ár. Þessi pakki hefur daglega minnt á innihald sitt, en samt hef ég ekki verið nógu dugleg að leita mér aðstoðar eða hjálpar við að  taka til og pakka niður. Það er ekki ólíklegt að þessi pakki hafi líka sligað mig talsvert líkamlega án þess að ég gerði mér beint grein fyrir því. Læknirinn hér telur a.m.k. að það sé mjög líklegt að það eigi einhvern hlut að máli og vill að ég fái nú aðstoð hérna til þess að vinna í þessu máli. Opna pakkann, skoða innihaldið, grisja og geyma hann þar sem hann er ekki alltaf að trufla mig.  

Það tíðkaðist nú ekki á þeim árum sem fór að safnast í pakkann minn, neitt sem hét áfallahjálp. Málið snerist bara um að láta engan bilbug á sér finna – standa sig hér og standa sig þar og passa sig að gráta ekki á torgum úti eða láta aðra sjá að manni liði illa. 
Í dag er vonandi tekið öðruvísi á svona málum. 

Þessi pistill átti aldrei að verða svona persónulegur, en það er svo margt sem ég er í raun að upplifa aftur á þessum stað, hvert skref sem ég geng hér um gangana, sit í borðsalnum eða hitti hjúkrunarfólkið – allt vekur þetta upp svo miklar minningar og hér kvöddum við  tengdamamma Odd í hinsta sinn í litlu stofunni hérna niðri. 

Ég er alveg viss um að einmitt hér á þessum stað eigi ég að takast á við allt þetta minningaflóð og gömlu erfiðleika, með hjálp þess fagfólks sem mér býðst nú aðgangur að.

Stundum eru tekin af manni ráðin í þessum bloggskrifum – tilfinningarnar gerðu það allavega í þetta sinn, en það ku líka vera gott að skrifa sig frá hlutunum svo kannski hef ég þegar stigið fyrsta skrefið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Að takast á við minningar.

  1. Svona tiltekt er nauðsynleg, og vertu viss þegar henni er lokið leiðist gigtinni svo að hún fer. Reykjalundur er góður staður og gangi þér vel. Kærust í húsið.

  2. Guðbjörg says:

    Þetta líst mér vel á
    Ragna mín. Mikið líst mér vel á að þú kíkir í þennan pakka. Ekkert gott að burðast með svona. Gangi þér sem allra best. Hugsa til þín.

  3. þórunn says:

    Ragna mín, takk fyrir þenna hreinskilna pistil. Ég er ekki hissa þó þú eigir þung spor þarna núna, en það er eins og sumir hlutir komi til manns á réttum tíma. Þú skalt endilega þiggja alla þá hjálp sem þér býðst þarna, ekki síður andlegan stuðning en líkamlegan. Það er örugglega ekki létt að burðast með svona minningar. En nú er tíminn til að sortera eins og þú segir. Gangi þér vel og komdu heil heim að dvölinni lokinni.
    Þórunn

  4. Anna Sigga says:

    Góður pistill!
    Gangi þér vel í „tiltektinni“, Ragna mín!Stórt KNÚS!!!

Skildu eftir svar