Vika liðin.

Já nú er vika liðin af Reykjalundardvölinni. Ég er komin heim í helgarfrí og hlakka bara til að takast á við næstu viku. 

Núna þegar ég fór að lesa það sem ég skrifaði í síðasta pistli þá nánast ofbauð mér hvað ég var opinská og var helst að hugsa um að taka þá færslu út. En það er nú svo með orð, hvort sem þau hafa verið sögð eða birt rituð,  þá standa þau og verða ekki aftur tekin, hvaða aðferð sem beitt er. Ég læt þetta því standa enda eru það bara þeir sem þekkja mig og söguna sem vita hvað að baki býr.

Það er svo yndislegt að vera þarna á Reykjalundi og starfsfólkið alveg einstaklega hlýlegt og gott og maður finnur svo vel hvað allt starfsfólkið er samtaka og áhugasamt um að finna bestu lausn á öllum krankleika og vandamálum. Ég get nú ekki dæmt um aðrar deildir, en ég er mjög heppin með félagsskapinn á gigtardeildinni, hvort heldur er hjúkrunarfólkið eða samsjúklingarnir – allt afskaplega þægilegt fólk. Það er örugglega óhætt að segja að Reykjalundur sé í fremstu röð endurhæfingarmiðstöðva, ekki bara hér á landi heldur þó víða væri leitað.

Það er afskaplega vel haldið utan um allt meðferðarformið og greinilegt að þarna skiptast meðferðaraðilarnir á upplýsingum sín á milli. Ég fæ nýja stundaskrá þegar ég kem úr helgarfríinu og er spennt að sjá hvað hún hefur að geyma. Þarna er nánast daglega verið að endurskoða meðferðina og breyta eftir því sem þurfa þykir- ég fékk samkvæmt því þrisvar sinnum  nýja stundaskrá inn til mín í síðustu viku.

Ég er ákveðin í að fara í einu og öllu eftir því sem fyrir mig er lagt og gera hvorki meira eða minna en það sem ég á að gera. Mér hefur hætt til þess í gegnum tíðina að vilja fara skrefinu lengra en mér hefur verið ætlað og talið mig þannig vera að gera enn betur. Nú ætla ég hins vegar að láta þá sem meira vit hafa á hlutunum en ég hef, að ákveða hvað mér er fyrir bestu og ætla að passa mig vel að fara ekkert út úr rammanum.

Hjartans kveðja til ykkar allra kæru vinir mínir sem hugsa til mín og koma hérna í heimsókn.

Bókin mín góða um hamingjuna segir:

 Jákvæðar hugsanir birtast og hverfa
líkt og tunglið þegar það veður í skýjum.
Og tunglið er á sínum stað þótt það sé hlulið
skýjum og fyrir ofan skýin er alltaf bjart.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Vika liðin.

  1. þórunn says:

    Sæl Ragna mín, ég dáist að þér fyrir hreinskilnina, þú þarft ekki að skammast þín fyrir hana. Að gera betur en vel getur verið verra.
    Það er rétt ákvörðun hjá þér að fara eftir fyrirmælum fagfólks, það miðlar af langri reynslu. Ég er viss um að þú átt eftir að koma sem sterk og ný manneskja út af Reykjalundi í lokin. Gangi þér allt í haginn. Bestu kveðjur frá okkur Palla.

  2. Sigurrós says:

    Hafðu ekki áhyggjur af síðustu færslu, þú þarft ekki að hafa móral yfir neinu sem þú skrifaðir þar. Það er gott að geta talað um hlutina og þetta er ekkert sem þarf neitt að vera að fela!

  3. Ragna - smá viðbót says:

    Eitt verð ég nú að láta koma fram, það er hvað ég var lánsöm að kynnaast honum Hauki og hvað hann hefur verið okkur mæðgum mikil stoð og stytta. Það sem ég þarf hinsvegar að gera, er að vinna úr öllum gömlu áföllunum og sársaukanum, sem alltaf eru að skjóta upp kollinum.

Skildu eftir svar