Þriðja vikan.

Þriðja vikan mín endaði nú með pomp og pragt á því að ég fékk frí í göngunni á föstudag og fór beint í saumaklúbb. Mikið var nú gott að komast aðeins í tertur og fínerí hjá Eddu Garðars, eftir hrökkbrauð og brauð í kaffitímanum alla vikuna. Annars þarf ekki að kvarta yfir matnum hérna hann er mjög góður eins og allt annað.

Það er nú allt á svipuðum nótum í meðferðinni. Nú er streitustjórnunar- og slökunarnámskeiðið búið og það verður spennandi að sjá hvað verður sett á þá tíma í næstu viku. Svo þarf að kíkja yfir gögnin af því námskeiði öðru hvoru til þess að rifja upp og til þess að muna að við skrifuðum niður það sem við ætlum að breyta í lífi okkar og það verður að standa við, því annars er allt unnið fyrir gíg. Það er alltaf að koma ný og ný dagskrá í hverri viku. Ég hef verið í vatnsleikfimi á morgnanna, bara svona meðalþungri,  en sá svo í þessari viku að það var kominn tími klukkan þrjú einn daginn. Ég vissi nú bara ekki í hvað ég var komin í þeim tíma því bæði var hann mun lengri en hinir tímarnir og hraðinn svo miklu meiri. Það var stöðvaþjálfun með pallaleikfimi í vatninu teygjutogun og fleiri æfingar. Allt á miklum hraða. Músikin var svo skemmtilegt og þetta var mjög hressandi en manni minn hvað ég var þreytt og eftir mig daginn eftir,  þrátt fyrir það að hafa verið í æfingum alla daga undanfarið.  Já svona gengur þetta nú fyrir sig, suma daga er maður eldsprækur og aðra daga dregst maður áfram í syfju og leti.  En, allt er þetta nú undir "kontról" og úthugsað. Mér finnst alveg rosalega gaman í glermosaikinu og næ vonandi að klára lampann áður en ég verð endanlega send heim.

Ég fékk tvær heimsóknir í vikunni. Nú er Haukur kominn heim úr Danaveldi og kom í heimsókn í vikunni. Svo kom Vilborg systurdóttir mín eitt kvöldið, en hún býr hér í Mosfellsbæ og var í göngutúr með tíkina sína. Það er alltaf gaman þegar einhver lítur inn.

Þarna kemur nýtt fólk og aðrir fara. Ég á eftir að sakna þeirra sem luku sinni meðferð og fóru heim um helgina en það verður jafnframt spennandi að sjá hverjar koma í þeirra stað.

Ætli ég hafi nú þennan pistil nokkuð lengri Ég geri örugglega eitthvað skemmtilegt í helgarfríinu um helgina.

Njótum þess sem lífið hefur uppá að bjóða.
Sláum ekki á útréttar hjálparhendur
og verum góð hvert við annað.

GÓÐA HELGI.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

8 Responses to Þriðja vikan.

  1. þórunn says:

    Gott að heyra þetta, ég tek undir lokaorðin þín, njótið helgarinnar og samverunnar eftir aðskilnaðinn.
    Bestu kveðjur frá okkur í Austurkoti

  2. Svanfríður says:

    Gaman að sjá hversu bjartsýn þú ert alltaf.Það þarf fleira fólk eins og þig:)

  3. Ingibjörg Guðmundsdóttir says:

    Gott blogg hjá þér Ragna. Ég á sannarlega eftir að sakna stunda okkar saman á Reykjalundi. Gangi þér sem allra best og skilaðu kveðju til allra vina minna upp á deild A-3:-))

    Kærar kveðjur Inga

  4. Ragna says:

    Þórunn og Svanfríður þakka ykkur fastagestunum fyrir kveðjurnar og Inga það er gaman að fá þig í heimsókn á síðuna mína. Það vantar nú mikið eftir helgina þegar þið stöllurnar eruð farnar en ég skal skila kveðju til allra þegar ég kem uppeftir á morgun. Gangi þér vel með allt.

    • Rizalawludit says:

      Já fytrsa vikan í skólanum liðin og smá hvíld um helgina svo er bara að bretta upp ermarnar á mánudag og lesa og lesa ég vildi fá svona heimavinnu eins og Ágúst að skrifa sögu um ömmur mínar. En það er víst eitthvað flóknara sem ég þarf að skrifa En allavega vonandi verður veturinn frábær hjá öllu skólafólki í familíunni já og auðvitað hinum. Til hamingju með bróðir þinn.Kv Hólmfríður frænka

  5. Hef á tilfinningunni að þér líði mun betur. Gegnum tíðina hef ég sennilega eytt 2 árum samanlagt á Reykjalundi og þar gerast hlutirnir. Gangi þér vel og ég bið fyrir bestu kveðju í alla króka og kima hússins.

  6. afi says:

    Mikið puð.
    Það getur verið mikið puð að ná fullri heilsu, eftir langvarandi veikindi. Með jákvæðni og eljusemi gengur allt betur. Óska þér góðrar heilsu og velfarnaðar. Loka orðin eru orð í tíma töluð.

Skildu eftir svar