Fjórða vikan flogin.

Mikið líður tíminn hratt. Fjórða vikan bara flogin í burtu á ógnarhraða. Ég átti alveg eins von á því að mér yrðu látnar duga fjórar vikur hérna í öllum niðurskurðinum og kreppunni, en það er búið að bæta tveimur við og er ég þakklát fyrir það. Sjúkraþjálfarinn er enn að reyna að liðka eitthvað á mér skrokkinn. Hann hefur verið að reyna að ná meiri liðleika í háls, axlir og bak, en hann er búinn að segja mér að ég geti ekki búist við að fá meiri hreyfingu í sjálft bakið – þetta gengur hægt en vonandi bítandi. Ég á að vera dugleg að gera æfingar til þess að stirðna ekki meira upp. Hann var búinn að kenna mér að nota stigvél. Ég fór svo sjálf á þetta tæki næsta dag,  og steig það samviskusamlega í þessar tíu mínútur sem ég átti að vera. Síðustu þrjár mínúturnar voru hinsvegar svo erfiðar að ég var að gefast upp, en þrjóskan hélt mér á tækinu til enda. Ég mældi þá púlsinn með púlsmælinum í tækinu, og var hann kominn í 153. Ég ætlaði svo að klára prógrammið eftir þessa 10 mínútna upphitun en var bara alveg að leka niður svo ég lagði mig aðeins á bekk þarna en fór svo bara aftur upp á deild, Þar sem ég lét mæla púlsinn aftur og þeim, fannst hann ennþá mælast of hraður.
Það er nú svo gott hérna eftirlitið að það var bara allt sett í gang og til þess að gera langa sögu stutta þá var ég send í hjartalínurit næsta dag, á föstudag.
Ég var svo rétt komin hérna heim í helgarfríið þegar læknirinn hringdi og tilkynnti mér að eftir helgina ætti ég að vera undir eftirliti hjartadeildarinnar og hita upp með monitor til þess að það sé hægt að finna út af hverju púlsinn hækkar svona hratt og svona hægt niður aftur.  Það er auðvitað gott að fá slíka rannsókn, því ég átti í svona basli  með hraðan púls s.l. vetur og það var ekki búið að finna út af hverju þetta stafaði. Þá var ég hinsvegar ekki í neinni tækjaleikflimi heldur vaknaði bara með svona hraðan púls. Kannski dreymdi mig bara þá að ég hefði verið komin í ræktina.

Já ég segi það enn og aftur að það er bókstaflega allt tekið til athugunar hér og haldið vel utanum sjúklingana.

Svo ég klári nú vikuna þá fórum við í tvær veislur í dag laugardag. Fyrst var ferðinni heitið á Selfoss til þess að fagna með lítilli frænku minni Sólrúnu Maríu, að hún var orðin 6 ára og síðan í Garðabæinn til þess að fagna með honum Bjarka frænda stelpnanna minna, að hann var að ljúka prófi í rafvirkjun.  Aldeilis frábær dagur.

Vonandi set ég eitthvað inn í lok fimmtu vikuna minnar. Það er alla vega mjög forvitnilegt að vita hvað bíður min eftir helgina.

Kær kveðja til ykkar allra. 
Verum góð hvert við annað  og gleymum ekki
að fyrirgefa ef einhver hefur gert eitthvað
á hluta okkar,  því lífið er of dýrmætt til
þess að sóa því í langvarandi illindi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Fjórða vikan flogin.

  1. Áfram skal haldið og gangi þér vel mín kæra.

Skildu eftir svar