Helgin var bara alveg frábær.

Haukur er bóksataflega búinn að dekra við mig um helgina. Þegar ég kom heim var hann búinn að þrífa alla íbúðina og bauð svo uppá kjötsúpu í kvöldmatinn. Ég þurfti ekki einu sinni að sjá um innkaup fyrir helgina því hann var búinn að sjá fyrir því. Ég gat því lifað eins og prinsessa og látið stjana við mig. Við vorum reyndar tvær sem hann fékk að stjana við því dóttir hans frá Danmörku er hér í heimsókn og nú kom sér vel að hafa gestaherbergið. Alltaf gaman þegar einhver vill nýta sér það.

Ég var nú búin að segja frá Selfossferðinni og útskriftarveislunni í gær og svo héldu veisluhöldin áfram í dag. Haukur bakaði pönnukökur með kaffinu og bauð svo upp á lambalæri og jarðaber í kvöldmatinn.   Það var því sæl og södd kona sem ók upp að Reykjalundi í tæka tíð til þess að ná í fyrsta þáttinn af íslenska þættinum "Hamarinn". Ég sagði nú þegar ég fór að heiman að ég yrði örugglega ekki svöng aftur fyrr en í fyrsta lagi á miðvikudag því svo mikið væri ég búin að innbyrða um helgina. Ég hugsa að ég breyti því nú í þriðjudag því miðvikudagarnir eru sístir í matnum hérna – alltaf eitthverjir baunaréttir á miðvikudögum og þá get ég bara ekki borðað því mér verður svo illt í maganum af þeim. 

Nokkru eftir að ég var komin uppeftir og var að horfa á sjónvarpið í setustofunni okkar hérna uppi á deild, þá fannst mér ég alltaf heyra einhver hljóð sem ég áttaði mig ekki alveg á hvað gæti verið. Svo heyrði ég umgang  á ganginum og síðan skræki og hræðsluóp. Svo kom hjúkrunarkona hlaupandi og spurði eina karlmanninn sem kominn var á svæðið hvort hann gæti hjálpað því það væri kominn starri inn í eitt herbergið og hann bara flögraði um og skrækti og hún  og sú sem var að koma í herbergið þorðu ekki fyrir sitt litla líf að leggja til atlögu við hann.  Auðvitað varð karlmennið að standa sig og honum tókst að grípa utan um starrann og koma honum út um gluggann.  Já það getur nú ýmislegt skeð hérna utan dagskrár.

Bara svo ég gleymi nú ekki að nefna einu líkamsrækt helgarinnar, þá fórum við Haukur í göngutúr niðri í miðbæ í dag og röltum upp Suðurgötuna og svo fram með tjörninni í því yndislega veðri sem var bæði í dag og í gær.

Nú er klukkan að verða ellefu og best að fara að koma sér í rúmið því nú þarf ég að vakna aftur klukkan 7 og koma mér úr dekurgírnum  í næsta gír og safna kröftum fyrir stundaskrá vikunnar.  Þó vel sé um alla hugsað hér á þessum góða stað þá erum við ekki komin hingað til að liggja í dekri heldur vinna að því hörðum höndum að fara heilli heim en við komum á staðinn.

Góða nótt.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar