Aðeins ein vika eftir.

Síðasta vika var nokkuð sérkennileg  og þá sérstaklega hvað veðurfarið áhrærði.

Hún byrjaði svo fallega og ég smellti mynd af grænu grasflötinni
fyrir neðan gluggann minn einn morguninn og var að hugsa um hvað
það yrði nú gaman að skreppa í haustlitaferð í næsta helgarfríi.

reykjalundur53.jpg

Síðan fór að snjóa og allt varð hvítt og bílar voru stopp á
sumardekkjunum í brekkunni og einn vafði sig utan um ljósastaur.
Á myndinni hér fyrir neðan eru menn að athuga  með bíla sem voru stopp
í brekkunni. Birtan var svo sérkennilega falleg þarna um morguninn.

reykjalundur52.jpg

Um kvöldið var himininn líka svo fallegur.  reykjalundur51.jpg

Haukur dreif sig upp eftir með vetrardekkin til mín og við fórum og létum setja þau undir svo ég yrði nú klár í vetraraksturinn. Auðvitað notuðum við tækifærið og fengum okkur kaffi og með því í konditoríinu í Mosfellsbakaríi og vorum ekki svikin af því sem við fengum þar.  Það fór hinsvegar svo að á föstudaginn var komið brjálað veður rok og rigning svo ég var hreint ekki viss um að komast í bæinn en mér lá á að komast því það beið mín að fara út að borða með saumaklúbbnum og svo í leikhús á eftir. Ég var búin að hlakka mikið til og hélt því út í óveðrið sem var svo mikið, að loksins þegar við höfðum tvær haft það af að opna útihurðina uppi á Reykjalundi þá hreinlega fukum við með töskurnar og hafurtaskið því það var bara ekki stætt. Ég rambaði þó á bílinn að lokum en var hreint ekki rótt þegar ég ók af stað.

Ég komst þó heim klakklaust og dreif mig beint í sturtu og fór að mála á mig spariandlitið og finna föt til að fara í.  Það varð hins vegar ekkert úr skemmtikvöldinu því það kom í ljós að það voru veikindi í hópnum og við fengum að fresta leiksýningunni þar til síðar  svo við gætum að allar verið mættar til þess að halda upp á 45 ára saumóafmælið okkar. Föstudagskvöldinu eyddum við Haukur því hérna heima við kertaljós og huggulegheit fyrir framan sjónvarpið.

Í dag  komu svo dæturnar og Magnús Már í kaffi og litli nafni og litla nafna.  Stóru börnin voru hjá pabba sínum.

Nú er bara vika eftir á Reykjalundi og vonandi nýtist hún mér vel. Ég hef verið í smá aukatékki hjá þeim á hjartadeildinni vegna smávesens sem upp kom og hjóla alla næstu viku í hjartahópi tengd monitor. Ekkert til þess að hafa áhyggjur af – ég hef þær a.m.k. ekki.

Ég á bara smávegis eftir af glermosaiklampanum sem ég hef verið að búa til í handverkinu og hlakka til að koma með hann heim.  Þessi vika á eftir að fljúga á tvöföldum hraða og þó ég hlakki mikið til að koma aftur heim þá finnst mér einhvern veginn að ég þyrfti að vera aðeins lengur. Ég er reyndar búin að fá þá umsögn að bakið sé ekki hægt að gera neitt við eða fá meiri sveigju í  það, því það sé bara ónýtt og stífleikinn sé kominn til að vera. Jæja, ég verð að vera eins og Pollýanna og þakka fyrir að bakið varð fast í svona uppréttri stöðu, því þarna uppfrá er fólk í alla vega bakstöðum og hreint ekki allir svo heppnir að ganga uppréttir.  Nú verð ég bara að passa allar hreyfingar, athuga hvernig og í hverju ég sit, bera ekki þungt eða beygja mig og snúa upp á mig um leið, svo ég fái ekki fleiri brjósklos. Það er von til þess að hálsinn haldi eitthvað áfram að mýkjast en staðan þar er þó reyndar svipuð.

Reykjalundur er frábær en það er ekki hægt að ætlast til þess að þeir geti lagað alla slitnu  beinagrindina mína –  það væri nú bara óréttlátt að fara fram á það, en ég er viss um að ég á eftir að búa lengi að þessari dvöl og þeirri fræðslu og umhyggju sem, ég hef notið og er mjög sátt og ánægð.

Spakmælabókin mín góða segir:

Ef við værum alltaf að bíða eftir rétta
augnablikinu til að gleðjast, lifðum við ævina
til enda án þess að kynnast nokkurn tíma hamingjunni.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Aðeins ein vika eftir.

  1. Katla says:

    Myndirnar eru frábærar og gaman að sjá muninn á veðri! Það er gott að polluanna er með í för hjá þér kæra Ragna, njóttu vel síðustu vikunnar á Reykjalundi! Hlakka til að sjá mynd af mosaiklampanum þegar hann verður klár: )

Skildu eftir svar