Komin heim og ætla að breyta lífsmynstri mínu í næstu viku.

Í gær kvaddi ég Reykjalund og allt það frábæra starfsfólki sem daglega leggur alúð og metnað í að koma skjólstæðingum sínum heilbrigðari heim en þegar þeir komu til meðferðar. Ég tel mig lánsama að vera ein af þessum skjólstæðingum og er mjög þakklát fyrir allt sem fyrir mig var gert. Ég er líka svo þakklát fyrir allt það góða fólk sem ég var svo heppin að kynnast á gigtardeildinni á þeim 6 vikum sem ég var þarna. Ég hefði ekki getað verið heppnari með félagsskap.

Það var ósköp notalegt að koma heim í gær, Haukur var búinn að þrífa allt út úr dyrum og gera fínt svo ég þurfti ekki að byrja á slíku. Ég byrjaði hinsvegar á smá dekri og snyrtingu því nú var komið að því að við í saumaklúbbnum færum út að borða og að sjá Fúlar á móti. Þetta lukkaðist mjög vel og við hlógum mikið að þeim stöllum í Fúlar á móti enda þekktum við mjög vel viðfangsefni þeirra.

Í dag höfum við Haukur verið svona ýmislegt að stússa, verzluðum í Krónunni og kíktum til Sigurrósar með vesti sem ég var að prjóna á hana litlu nöfnu mína. Svo höfum við bara haft það huggulegt hérna heima, borðuðum góðan mat og höfum svo horft á Imbann í kvöld. 

Ég er svona enn að vakna til raunveruleikans aftur eftir að hafa eingöngu hugsað um sjálfa mig og mínar þarfir og velferð í 6 vikur, en nú er komið að því að ég fari að nýta mér það sem ég lærði og ávann mér á Reykjalundi.  Helgin er góð til þess að koma mér svona aðeins í heimagírinn og til þess að útbúa stundaskrána sem ég ætla að fara eftir í framhaldinu. Það er alla vega eitt ákveðið og það er að byrja hvern dag á líkamsrækt og sundi og svo tvisvar í viku í sjúkraþjálfun. Vonandi verð ég eins dugleg að mæta daglega í Nautulus og geri æfingarnar þar af sömu alvöru og ég gerði á Reykjalundi. Helgi, sjúkraþjálfarinn minn þar sagðist útskrifa mig með bestu einkunn fyrir ástundun og samviskusemi, en hann sagði jafnframt að það sem ég þyrfti fyrst og fremst að varast, væri að fara of geyst.  Ég veit líka að það verður erfiðast.

Á mánudaginn fer ég til hjartalæknis, sem læknirinn á Reykjalundi vill endilega senda mig til og var búinn að panta tíma fyrir mig. Ég á nú helst von á því að það sé tímaeyðsla og allt í lagi með hjartalag mitt, en það er best að gegna og láta kanna þetta.

Mig langar til þess að fara að reyna að lappa eitthvað upp á þetta blessaða blogg mitt. Þetta er orðin eitthvað svo þreytt og leiðinleg lumma. Nú er ég hinsvegar orðin svo syfjuð að ég ætla að hætta að pára þetta og koma mér í rúmið.  

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Komin heim og ætla að breyta lífsmynstri mínu í næstu viku.

  1. Já, tíminn er fljótur að líða, og vonandi heldur þú þér í horfinu án agans á Reykjalundi. Það er nefnilega dálítið erfitt, og bloggið þitt er ekkert lummulegt! Kærust í bæinn.

  2. Guðbjörg Stefáns says:

    Gangi þér vel
    Ragna mín. Gangi þér sem allra best að halda þig við prógrammið þitt.. og mundu nú að heim kemst þó hægt fari og allt er best í hófi og……. veit nefnilega að það verður þér erfitt að vera róleg. Bestu kveðjur frá okkur hér á Kirkjuveginum sem höfum það öll mjög gott.

Skildu eftir svar