Ýmislegt á döfinni – ástæðulaust að láta sér leiðast.

Veðrið var svo fallegt í gær að okkur langaði til þess að skreppa eitthvað. Það varð svo úr eftir hádegið að við fórum á þjóðminjasafnið til þess að skoða gömlu ljósmyndirnar sem eru sýndar í Bogasalnum.

Síðan lá leiðin upp í Perlu þar sem Haukur bauð upp á tertusneið og kaffi. Það var svo fallegt að horfa yfir borgina af svölum Perlunnar og þar blasti t.d. allt Snæfellsnesið við snævi þakið, allt út að jökli sem var baðaður sól. Esjan og Skarðsheiðin voru báðar komnar með fallegar hvítar húfur eins og Hengillinn og önnur austurfjöll.  Mikið var ég skúffuð að hafa ekki tekið myndavélina með mér því myndefnið var svo fallegt – en eins og við segjum þá gengur bara betur næst.

Þegar við horfðum frá Perlunni í átt að Fossvogskirkjunni þá sáum við að það var komin einhver hringlaga braut og eins og stöðuvatn þar við hliðina.   Haukur hélt kannski að þetta væri go-kart braut, en ekki sáum við nein merki um slíkt.
Veit einhver hvað þarna hefur verið sett upp? 

Seinni partinn í gær sat ég svo hjá ömmustrákunum mínum á meðan Guðbjörg og Magnús Már skruppu í bíó.

Í dag hef ég svo haldið áfram að finna út æfingaskrá sem passar mér miðað við núverandi ástæður.

Ég ræddi við sjúkraþjálfarann í Klinik í morgun og kemst í meðferð og æfingar í sal hjá honum tvisvar í viku.  Hann er með sambærileg tæki þeim sem ég notaði á Reykjalundi svo það ætti að ganga fínt. Svo prufaði ég að fara í vatnsleikfimi sem Versalasundlaugin býður upp á klukkan hálf þrjú á miðvikudögum. Það er engin skráning, bara borga sig í laugina á þessum tíma og mæta í leikfimina – þetta var bara alveg stórfínt og hressandi í dag.
Nú er ég því komin með prógram fyrir þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga, en það gekk ekki í dag að fá upplýsingar um það hjá Kópavogsbæ, á hvaða tíma á morgnanna það er, sem hægt er að ganga inni í íþróttahúsi Smárans, eða hvort það er yfirleitt hægt. Ég hef heyrt fólk tala um hvað þetta sé fínt yfir veturinn en erfiðlega gengur að fá nánari upplýsingar. Ég ætlaði að ganga þar á mánudögum og föstudögum þegar ekki viðrar til að ganga úti.  Endilega ef einhver hefur þessar upplýsingar þá gerið viðvart og látið mig vita. 

Þegar þetta verður komið á æfingaskrána líka þá verð ég komin með fullt hús fyrir vikuna og svo sé ég bara til hvað ég geri um helgar – kannski ligg ég bara í leti þá.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Ýmislegt á döfinni – ástæðulaust að láta sér leiðast.

  1. Katla says:

    Þú munt örugglega eiga skilið að liggja í leti allar helgar með prógram alla vikuna. Enda ættu sem flestar helgar að vera fyrir skemmtilega og helst óplanaða hluti. Kannski ég bregði mér á Þjóðminjasafnið um helgina næstu, langt síðan eg hef farið á það góða safn. Svo er haustlitaferð á Þingvöll líka ómissandi: )

  2. Anna Bj. says:

    Til hamingju með hana Carlottu þína, glæsilegt.
    Mér veit um mann sem fer í Fífuna á morgnana kl. 9 og gengur þar inni. Maður kunningjakonu minnar. Vert að athuga. Mikið ertu annars dugleg og lifandi Didda mín.

Skildu eftir svar