Afmælin.

Þá er nú Karlotta mín búin að bæta við sig ári og er orðin 7 ára. Hún var búin að bæði hlaupa og hjóla út um allt með boðskort í afmælið sem var síðan haldið í dag. Það voru aðallega skólasystkin hennar og vinir sem mættu að þessu sinni en ættingjarnir úr Reykjavík voru fjarri góðu gamni því allir eru auðvitað í vinnu á þessum tíma á föstudegi. Það var mjög gaman að fylgjast með krökkunum fara í allskonar gamaldags leiki eins og t.d. „Í grænni lautu geymi ég hringinn“ og fleiri góða sem farið var í hér á árunum áður. Þetta fór allt saman vel fram en kannski ekki alveg hávaðalaust en hver býst nú við slíku í 7 ára afmæli þar sem er fullt hús af börnum.


Börnin komu klukkan tvö í afmælið til þess að nýta tímann því klukkan fimm voru Karlotta og Oddur sótt til þess að fara til pabba síns yfir helgina.


Á morgun á svo Guðbjörg afmæli en það á nú ekkert að halda upp á það. Reyndar var hún búin að hlakka til þess, þar sem hún er barnlaus þessa helgi, að fara á sælkerakvöld sem átti að vera hjá kennurunum hérna í Sólvallaskóla annað kvöld en vegna hins hræðilega atburðar sem gerðist hér á Selfossi í vikunni var öllu slíku aflýst.


Ekki sýnist mér nú að sjónvarpið verði spennandi í kvöld svo ég ætla að láta renna í bað og fara svo í rúmið þó klukkan sé ekki nema hálf níu og lesa svoldið í nýju Noru Roberts bókinni, „River’s end“ sem ég tók á bókasafninu. Ég er svo lengi að lesa þessar 500 síðna „pocketbækur“ því ég er venjulega orðin svo syfjuð eftir svona 4-5 blaðsíður að næst þegar ég tek til við lesturinn þá verð ég að byrja á því að lesa aftur síðustu síðuna úr seinasta lestri. Þetta er svona eins og ganga fimm skref áfram og fara svo eitt afturábak. Ég get ennþá ekki fundið mig í að setjast niður að deginum og lesa í bók því þá finnst mér að ég eigi að vera að gera eitthvað annað. Þetta er sjálfsagt síðan ég var barn því mamma las aldrei fyrr en hún var komin upp í rúm á kvöldin, fannst annað vera leti. Hvað ætli það taki mann annars marga áratugi að losa sig undan ýmsu sem maður vandist sem barn???


Jæja nú er freyðibaðið tilbúið og ég algjörlega búin í orlboganum á þessu pikki. Ekki það sniðugasta sem maður gerir, að sitja við tölvu þegar maður er hálf handlama. Ég verð þó að þrauka því ég ég fæ sprautu í olnbogann eftir helgina.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Afmælin.

  1. afi says:

    Er það ekki svolítið undarlegt að manni finnst alltaf að maður sé að svíkjast um ef gripið er í bók að degi til? Svo framarlega að maður liggi ekki rúmfastur.

  2. Sigrún says:

    Til hamingju með barnabarnið og dóttirina.

Skildu eftir svar