Energia og Fjalakötturinn – Ekki amalegt sama daginn.

Mikið er ég búin að eiga yndislegan afmælisdag.  Kveðjunum rigndi inn á Facebook strax í morgun og símtölin og SMSin hafa hlaðist inn í dag.
Um hádegið bauð Eddu Garðars mér í mat á uppáhaldsveitingahúsið okkar Energia í Smáralindinni þar sem við  höfðum það svo huggulegt að við gleymdum okkur alveg, eins og okkur hættir nú reyndar til þegar við hittumst vinkonurnar. Það dróst því í hádeginu fram að kaffi  en þá skrapp ég heim og gerði mig klára fyrir næstu törn sem var kvöldverðarboðið hans Hauks á Fjalaköttinn.

Ég mæli eindregið með Fjalakettinum þegar fara á út að borða. Þjónustan var alveg frábær, salurinn svo fallegur með lifandi blómum á hverju borði og maturinn alveg einstaklega góður og fallega fram borinn. Ég gat nú ekki annað en hlegið með sjálfri mér þegar ég fór að hæla því við þjóninn, hvað hnífapörin væru vönduð og falleg.  Við höfum ekki farið þarna áður en það er sko alveg víst að þarna eigum við eftir að fara aftur þegar við viljum fara fínt út að borða.

Ég sendi þakkir og knús í allar áttir til ykkar elsku vinir og ættingjar fyrir það hvað þið hafið gert mér daginn góðan og eftirminnilegan. Það er kannski eins og Loftur Þór mágur minn sagði þegar hann hringdi og ég sagði honum að það væri sko dekrað við mig í allan dag. Þá sagði hann " Já er það ekki svona þegar maður er orðinn "sixty four?"   Jú mikið rétt hjá Lofti og auðvitað Bítlunum sem sömdu þennan snilldartexta.

Ég bara gat ekki farið að sofa án þess að þakka fyrir mig og segja frá þessum góða degi.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Energia og Fjalakötturinn – Ekki amalegt sama daginn.

  1. þórunn says:

    Fullkomunn dagur
    Þú hefur greinilega átt fullkominn dag Ragna mín. Það er bara dásamlegt að eiga afmæli og finna kærleikann og vináttuna streyma til sín úr öllum áttum og njóta þess að vera til.
    Þeir fara mikils á mis sem vilja ekki láta neinn vita af afmælisdegi sínum.

  2. Svanfríður says:

    Ég held hreinlega að ég hafi ekki óskað þér til hamingju með daginn þinn og biðst afsökunar á því.TIL HAMINGJU MEÐ DAGINN ÞINN og vona ég að þú fyrirgefur mér slóðaskapinn.
    Hafðu það gott mín kæra.

  3. Ragna says:

    Hafir þú ekki sent kveðju Svanfríður mín þá var ég ekki búin að taka eftir því, því kveðjurnar voru svo margar. Þú er líka svo góð að senda mér kveðjur að þú átt það nú inni að gleyma öðru hvoru.

  4. Innilegar hamingjuóskir Ragna mín þótt seint sé. Þetta hefur verið hinn besti dekurdagur, og átt þú það svo sannarlega skilið. Kærust í bæinn.

Skildu eftir svar