Smá yfirlit síðustu viku.

Ég má nú ekki sýna svo glögg ellimerki eftir afmælið mitt, að ég  hafi ekki einu sinni rænu á að færa í dagbókina mína.  Það hefur alla vega verið nóg að gera svo ekki hefur mér leiðst.  Það er kannski helst það, að ég viti ekki hvað ég á að velja úr til að skrifa um fyrst ég gerði það ekki jafn óðum.  En, það er bara best að byrja á byrjuninni.

Við fórum í skemmtilegt afmæli til Einars mágs míns, bróður Odds heitins, en hann varð sextugur fyrir skömmu það var svo gaman að öll systkinin voru þar því Ingunn sem býr í Ameríku var hérna líka.  Ég átti svo einn dag með henni, á föstudaginn fyrir viku. Við borðuðum á veitingahúsi í miðbænum um hádegið og röltum svo um í Aðalstræti og út í Grófina og þar í kring og kíktum inn í nokkrar íslenskar hönnunarbúðir.  Síðan fórum við og skoðuðum Landnámssafnið í Perlunni og þaðan lá svo leiðin í kaffiboð hjá Guðbjörgu en Sigurrós og Ragna Björk voru komnar þangað á undan okkur. Þetta var alveg rosalega fínn dagur.

Svo var ég nú í einhverju læknastússi eftir helgina en ég nenni ekkert að vera að tíunda það. Ég er alla vega ennþá að bíða eftir hjartaþræðingunni, læknirinn er búinn að vera í smá fríi, en nú fer að styttast í þetta.  Mikið verð ég fegin þegar það er frá, því þó ég hafi ekki áhyggjur af að neitt sé að mér, þá er alltaf gott að vita hvar maður stendur í þeim hjartans málum.

Svo ég haldi nú áfram með smjörið, þá fórum við Haukur einn daginn í smá bæjarrölt, bara svona eftir hádegið á virkum degi. Keyrðum niður á Hverfisgötu og gengum þaðan upp á Laugaveg og röltum meðal annars í Jólabúðina, en þar hef ég aldrei komið inn. Mikið held ég að það sé skrýtið að vinna á slíkum vinnustað með jól allt árið. Hvernig ætli það sé svo að halda sjálfur jól heima. Ég ímynda mér að maður yrði kominn með jólin alveg upp í kok og langi bara ekkert til að yfirfæra vinnustaðinn á heimilið.  Æ, mér datt þetta nú bara svona í hug þegar ég var þarna inni.  Hinu megin við götuna fundum við svo bókakaffi sem heitir því skemmtilega nafni Glætan og þar fengum við kaffi og eplaköku og gátum kíkt í bækur sem þar prýddu hillur.

Að kvöldi þessa dags var svo hringt til mín og mér sagt að gamla vinkonan mín hún Tóta sem ég hef nú minnst á áður fyrir jákvæðni hennar í lífinu, væri látin. Það er sem betur fer ekki langt síðan ég heimsótti hana á Hrafnistu og ég hafði það einhvern veginn svo sterklega á tilfinningunni að þetta væri okkar síðasta samvera, sérstaklega fann ég þetta þegar við vorum að kveðjast.   Mér datt meira að segja í hug á leiðinni í heimsóknina að finna blómabúð og færði henni blómvönd. Af því að tilefnið var ekkert, þá sagði ég henni að þau væru bara af því mér þætti svo vænt um hana.  Mikið er ég þakklát fyrir að hafa drifið mig í heimsókn þennan dag en ekki frestað því þangað til seinna. Á meðan ég stoppaði hjá henni þá kom hjúkrunarkona inn til að spyrja hvernig hún hefði það. Þegar hjúkrunarkonan var farin aftur fram, þá sagðist Tóta mín hafa verið eitthvað hálflasin um morguninn en hún vildi ekkert gera úr því.  Við kvöddumst úti á tröppum eins og við vorum vanar að gera, því þó hún væri orðin svo lotin og gekk við göngugrind þá var ekki við annað komandi en að fylgja mér alveg út.  Mér heyrðist á dóttur hennar þegar hún hringdi til að tilkynna mér látið, að þessi lasleiki þarna passi við að hafa verið byrjunin á því að henni fór að hraka. 
– Svona hverfa nú þessar tengingar við fyrstu ár bernsku minnar hver af annarri.  En lífið heldur áfram þó gamla fólkið kveðji satt sinna lífdaga og allar góðu minningarnar sem við höfum verið að rifja upp geymast.

Ætli ég láti þetta ekki bara duga að þessu sinni.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar