Kominn laugardagur.

Já tíminn geysist áfram eins og honum einum er lagið og nú er bara vika þangað til aðventan gengur í garð.  Ég er sem betur fer búin að drífa í að klára að búa til jólakortin og á bara eftir að skrifa á þau. Mér finnst það helst til snemmt, því ég vil hafa eitthvað jólalegt í kringum mig þegar ég skrifa á jólakortin og spila jólalög á meðan – en það finnst mér nú of snemmt að gera áður en aðventan gengur í garð.

Ég fékk þó smá jólafíling í morgun því Ragna Björk bauð ömmu að koma með þeim mæðgum á leikskólann í jólaföndur. Þar var boðið upp á heitt súkkulaði, piparkökur og kleinur, sem var notalegt að gæða sér á milli þess sem málað var á gler og tré. Hún nafna mín hafði nú ekkert allt of mikla þolinmæði til þess að vera að dútla of lengi með litina og þegar búið var að skella litunum svona nokkurn veginn á viðfangsefnin, þá skrapp hún aðeins í rennibrautina og svo benti hún ömmu á myndir sem voru þarna á vegg og stóll fyrir framan sem mín prílaði uppá til að geta bent ömmu á hvar Ragna Björk væri á einni myndinni.  Við vorum í svona einn og hálfan tíma á leikskólanum,  en þá fór Ragna Björk til að vera með pabba en Sigurrós sem er í foreldraráði, þurfti að fara aftur og aðstoða þá sem áttu að vera eftir hádegið. Þetta var mjög gaman og minnti mig á þegar ég var á Selfossi, en þá fór ég svo oft með barnabörnunum í ýmislegt sem var á döfinni, bæði meðan þau voru í leikskólanum og í skólanum.

Eftir hádegið í dag ætlaði ég síðan að vera svo dugleg og byrja kannski að baka, en í staðinn var ég svo eirðarlaus að ég nennti engu og endaði á því að við skruppum bara í Kolaportið í þessum vanalegu erindagjörðum að kaupa flatkökur og rúgbrauð frá HP á Selfossi.  Við ókum niður Laugaveginn  og undruðumst hvað það var mikið af fólki í bænum og í Kolaportinu var alvegh krökkt af fólki og varla hægt að fá bílastæði á þessu nýja stóra bílastæði sem búið er að gera þarna fyrir framan.

——-

Úps, nú sé ég að klukkan er að verða hálf eitt – eftir miðnætti.  Haukur er að horfa á einhverja hrollvekju og ég bara gleymdi mér alvega hérna í tölvunni minni. Nú er sko mál að koma beint í rúmið, þó fyrr hefði verið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Kominn laugardagur.

  1. Já, tíminn líður mín kæra. Hvenær ferðu í hjarta“knúsið“? Kærust í bæinn

  2. Ragna says:

    Guðlaug mín, ég er bara að bíða eftir þessu hjartanlega. Það verður líklega rétt eftir mánaðamótin. Svínaflensan setti strik í þetta því Gjörgæslan var svo takmörkuð um tíma. Nú fer þetta allt að koma.

  3. afi says:

    Jólin koma senn.
    Timinn flýgur áfram á ofsa hraða. Áður við vitum af eru komnir páskar. Eins gott að drífa sig í að senda jólakortin og setja einn jóladisk á fóninn. Gangi þér allt í haginn.

Skildu eftir svar