Á aðventunni.

Mikið er ég leið yfir því hvað ég er löt að setja inn á bloggið mitt. Ég er alltaf að hugsa um það, en einhvern veginn er tíminn alltaf farinn í annað og þegar ég svo loksins sest til að pára eitthvað þá vantar bara algjörlega andagiftina.
Þó mér finnist að tíminn hlaupi frá mér þá er það nú ekki svo að ég sé búin að afreka mikið,  enda ætla ég ekki að ganga neitt fram af mér í jólaundirbúningi að þessu sinni. Jólakortin eru tilbúin að fara með í póst og ég hef verið að pára smá jólabréf til erlendra vina minna. Aðventuskrautið er komið á sinn stað og nokkrar smákökur komnar í box – svo var ég að baka Sörurnar í dag og ganga frá þeim áðan. Ég ætla að reyna að vera búin að sem mestu fyrir hjartaþræðinguna sem er þriðjudaginn 15. des. Mér finnst ég ekkert hafa verið að gera en þegar ég set þetta á blað þá finnst mér það nú bara heilmikið sem búið er. Ekki má heldur gleyma laufabrauðinu sem við fjölskyldan skárum og bökuðum um síðustu helgi.  Já það tínist eitt og annað til. Svo skruppum við Haukur og skoðuðum jólaþorpið í Hafnarfirði í gær. Það eru svo fallegar skreytingarnar í Hafnarfirði og þess virði að skreppa þangað á aðventunni.

aventa01.jpg

Skemmtilegast af öllu finnst mér að vera með unga fólkinu mínu.

 aventa02.jpg

Nú er kominn þessi uppáhaldstími aðventunnar þegar allar ljósaskreytingarnar eru komnar upp hjá fólki. það er líka kominn tími yndislega jólabjarmans.   Ég hef nefnt það áður að það minnir mig alltaf á barnæskuna, þegar við mamma vorum oft í lengri tíma við stofugluggann að horfa á jólabjarman og mamma var að segja mér frá bernskujólunum hennar. Alltaf var ég jafn heilluð af þessari fallegu birtu sem sló á himininn og leið svo vel að trúa því að þessi birta væri send okkur til þess að láta vita að jólin væru að koma.  Jólasveinar voru nú ekkert að trufla með gjöfum í skóna á þessum árum, en jólabjarminn lét sig aldrei vanta og gerir ekki enn.  

Ég er að hugsa um það hvort börn í dag gefi sér tíma til þess að taka eftir þessum fallegu litbrigðum náttúrunnar, eða hvort foreldrar hafa nokkurn tíma til þess að benda börnunum sínum á slíkt og njóta þess með þeim. Það er svo margt öðru vísi en var. Auðvitað á sér alltaf stað sjálfsögð þróun og fólk hefur meira að gera nú en áður – þó ekki endilega í vinnu eða heimilisstörfum heldur í öllu þessu áreiti út og suður, sem er á fólki í dag.   Mér finnst svo mikilvægt að þessir litlu einföldu hlutir sem ekki kosta peninga og ekki taka svo mikinn tíma  missi ekki alveg gildi sitt. Það er sorglegt ef það er t.d. ekki tími til þess í örfáar mínútur að benda börnum á t.d. hvað himininn er fallegur og tala um það við þau hvernig var þegar mamma og pabbi voru lítil. Það virðist ekki svo ýkja langt síðan þau voru lítil, en samt hefur ýmislegt breyttst. Ég held það sé svo mikilvægt að eiga svona rólegar stundir með börnum í dag, því áreitið á þau og hraðinn á öllu er oft óskaplega mikill.

 Nú verð ég að bremsa mig af og fara að koma mér í rúmið. það er komið fram yfir miðnætti og þar sem ég svaf ekki of vel síðustu nótt þá er ekki gáfulegt að sitja við tölvuna lengur.

Njótum jólabjarmans og félagsskapar
 hvers annars. Það er mikilvægast af öllu.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Á aðventunni.

  1. Svanfríður says:

    Góðar hugleiðingar hjá þér.Það verður að gefa sér tíma fyrir börnin okkar,svo einfalt er það.Þannig að ég er þér sammála.
    Hafðu það gott og gangi þér vel eftir viku.Kærar kveðjur.

  2. Góð skrif mín kæra, það hefur því miður verið of mikill hraði til að sinna því sem verulega skiptir máli. Vonandi er það að breytast. Gangi þér vel þann 15. Kærust að austan

  3. Þórunn says:

    Jólabjarmi
    Mikið finnst mér þetta orð fallegt „Jólabjarmi“ og fallega minningar sem þú átt við það. Ég er sammála þér með það hvað það er mikilvægt að foreldrar gefi sér rólegar stundir með börnunum sínum.
    Ég vona að allt fari að óskum á þriðjudaginn kemur. Líði þér vel Ragna mín og bestu kveðjur til Hauks frá okkur í Austurkoti

  4. Guðbjörg Stefáns says:

    Gangi þér vel
    Ragna mín. Gangi þér sem allra best í hjartaþræðingunni. Bestu kveðjur frá okkur hér í jólaljósunum á Kirkjuveginum. :o)

  5. Katla says:

    Mér sýnist þú hafa í nógu að snúast og flest af því ánægjulegt. Skemmtilegar myndir: )
    Kær kveðja frá Kötlu.

Skildu eftir svar