Lífið í dag.

Aðventan þokast áfram og nú er bara vika til jóla. Sitt lítið af hverju hef ég verið að gera til þess að fá smá jólastemningu. Annars hef ég aldrei verið rólegri í tíðinni fyrir jól en núna. Ég hef bakað smávegis, en ætla ekki að brenna mig á því að þurfa að henda fullt af bakkelsi eftir jólin af því að ég hafi bakað allt of mikið. Mér finnst neysluvenjurnar hafa breyttst svo mikið og fólk frekar njóta þess að borða annað með kaffinu en bara sætar kökur. Einhverju góðgæti lumar maður samt á. 
Við höfum notið þess á aðventunni að hafa kveikt á kertum og þeim jólaljósum sem ég er búin að setja upp í skreytingum í stofunni og bara virkilega slakað á og haft það notalegt. 

Við erum vön því að þrífa jafnóðum í kringum okkur og gerum eins og við erum vön, góða helgarhreingerningu fyrir jólin, en sjáum ekki tilefni til þess að standa í sérstökum allsherjarhreingerningum í svartasta skammdeginu – bara af því það eru að koma jól.
Vorið er tími stórhreingerninganna að mínu mati en aðventan til þess að njóta og láta sér líða vel.

advent09.jpg

Núna leiði ég hugann að því hvað forsjónin er mér góð og hvað ég hef margt til þess að þakka  fyrir. Í gær fór ég í hjartaþræðinguna og fékk þann úrskurð að kransæðarnar mínar væru alveg hreinar. Truflanir í rafleiðni hjartans hefðu að öllum líkindum eitthvað truflað línuritin eða eitthvað í vöðvanum – ég kann nú ekkert að skýra það en ég á ekki að þurfa að hafa áhyggjur af þessu og ég er auðvitað himinlifandi yfir því.  Á bara að koma aftur til hjartalækinisins eftir þrjá mánuði  og fara yfir stöðuna. 
Ég spurði hvort ég mætti þá fara að dansa og láta öllum illum látum aftur og svarið sem ég fékk var "Já endilega"   Nú er því tími til að gleðjast og vera bjartsýn. Ég á svo yndislega fjölskyldu og barnabörnin mín hvert öðru skemmtilegra og efnilegra og nú bíð ég spennt eftir fimmta barnabarninu í vor. Hvílík hamingja.

En í eigin gleði og hamingju má ekki gleyma því að slík hamingja er ekki sjálfsögð og það eru svo margir sem eiga um sárt að binda og margir að berjast við erfiða sjúkdóma. Það má því aldrei gleyma því að vera þakklátur fyrir hvern dag sem manni er gefinn og fyrir það sem lítur út sem sjálfsagður hlutur en er það alls ekki. Það er gott þegar okkur líður vel og allt leikur í lyndi að hugsa um það hvað við erum lánsöm, en hugsa jafnframt til þeirra  og  biðja fyrir þeim sem hafa það ekki eins gott.

Já, njótum vel þessarar síðustu viku aðventunnar, en gleymum því ekki í gleði okkar að þeir eru margir sem ekki hafa það eins gott og við sjálf. 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Lífið í dag.

  1. Þetta voru góðar fréttir mín kæra, svo nú er bara að pússa dansskóna. Það er ekki nóg að stofan þín sé falleg, hún er líka róandi. Satt er það, ekki líður öllum vel og hugsum við fallega til þeirra með kærri kveðju í salinn þinn.

  2. þórunn says:

    Góð heilsa, gulli betri
    Ég samgleðst þér Ragna mín að hafa fengið þessar góðu fréttir með æðarnar þínar og svo óska ég þér auðvitað líka til hamingju með að eiga von á enn einum gleðigjafa í fjölskylduna. Er það Ragna björk sem er að verða stóra systir?
    Bestu aðventukveðjur úr kotinu.

  3. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir kæru vinkonur. Já það er Ragna Björk sem er að verða stóra systir. Það verða nú svolítil viðbrygði hjá henni, en gott að það skuli vera systir því þær þurfa að deila saman herbergi.

  4. Katla says:

    Jákvæðni þín, gleði og hamingja er það sem dregur mig alltaf aftur og aftur að blogginu þínu kæra Ragna. Það er gott að lesa pistlana þína. Haltu áfram að slaka á og njóta aðventunnar með hreinar æðar og góða fjölskyldu í kringum þig.

Skildu eftir svar