Uss, uss.

Ég gerði svolítið af mér sem ekki var sko á dagskránni. Þannig er að ég átti safnkortsávísum frá Esso sem ég ætlaði að taka bensín út á í síðustu viku því ég hafði ekki fundið neitt í langan tíma sem mér hentaði af þessum tilboðum þeirra. Þegar ég talaði svo um það við afgreiðslumanninn að líklega endaði með því að ég notaði bara þessa ávísun fyrir bensíni þá sagði hann að ég skyldi endilega geyma hana því það kæmu svo svakalega fín tilboð eftir helgina og betra að koma fljótt því þau myndu fara strax. Hann gat ekkert sagt mér þá hver þau tilboð væru, ég yrði bara að koma aftur.
Ég dreif mig svo í gær og viti menn um var m.a. að ræða stafræna myndavél sem hefði átt að kosta 26 þúsund ( kannski bara tilbúið verð???)  en ég gat fengið hana með því að borga 11.900.- og safnkortsávísunina.  Ég stóð þarna eins og þvara og hugsaði á ég, á ég ekki? Er verið að plata mann eitthvað? Kannski er þetta bara drasl. Ég hleypti fólki í röðinni fram fyrir mig á meðan ég var að hugsa málið. Svo hleypti ég í mig kjarki og sagði “ Ég ætla að fá eina svona takk“ Búið og gert.  Nú er bara málið, keypti ég köttinn i sekknum eða gerði ég góð kaup?  Þetta er með sjálfhleðslubatteríi 3,7v og hleðslutæki fylgir.  Þegar ég spurði hvort þetta væri almennileg vél þá sagði maður þarna innanborðs já þetta er sko 6m. Já, já. hann gat nú hafa sagt mér hvað sem er ég skildi alls ekki hvað 6m væri en framan á kassanum stendur AR 220 6M PIXEL IMAGINE FILE.  Nú er batteríið komið í  hleðslutækið og þarf að vera þar til morguns. Það þarf að forhlaða þetta svona eins og nýja síma. Á morgun kemur svo voandi í ljós hvort ég hef keypt köttinn í sekknum eða hvort ég get tekið myndir af ketti úti í mýri. Alla vega vona ég að ekki verði úti ævintýri, ha, ha.


Bein.


Sumir eru svo heppnir að hafa bein í nefinu. En ég þarf alltaf að vera pínu öðruvísi og tók því upp á að láta vaxa út bein á báðum fótum. Ég var send til bæklunarsérfræðings sem ég hitti í gær. Ég ætlaði nú bara að sýna honum fótinn sem mig verkjar í en fela svona pent hinn því ég hef svo til enga verki í honum þó beinið hafi stækkað. Hann skoðaði þennan slæma og þurfti auðvitað að sveiga og beigja stóru tána svo við lá að ég æpti og sagði svo ánægjulegur á svip. “ Þetta verður að taka, má ég sjá, hinn fótinn“  – Ja, ég finn nú ekket til í honum. „Ég ætla að skoða hann líka“  – Engin undankomuleið-  Svo kom dómurinn “ Ég tek hann líka, best að taka báða í einu því þú verður hvort sem er að vera í gifsi í 5 – 6 vikur og síðan í spelkum. Það fer svo eftir röntgenmyndunum hvort gera verður liðinn sjálfan stífan eða ekki. Ég get gert þetta eftir tvo mánuði.“    Það var ekki fyrr en ég kom út sem ég áttaði mig á að ég gleymdi að spyrja hvort ég gæti dansað ef liðurinn er gerður stífur. Ef ég get það ekki þá vil ég heldur hafa verkina heldur en að geta ekki dansað. Þegar ég svo sagði Hauki frá þessu þá sagði hann „Bíddu, ætlarðu að taka sumarið í þetta?“. Nú bara hringsnýst ég og pæli í því hvort ég eigi að afþakka aðgerðina og láta mig hafa það að vera svona eða hvað,  h j á l p !  hvað á ég að gera í málinu?  Er einhver þarna úti sem hefur farið í svona aðgerð?  það væri fínt að heyra um reynslu annarra. 


Þetta er svona efst á baugi hjá mér í dag svo ég geymi annað til morguns.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Uss, uss.

  1. afi says:

    illu er …
    Illu er best aflokið.
    Frestur er á illu ….
    Hvað sem þú gerir vonar afi að þetta gangi allt vel hjá þér, og að þú megir fara dansandi í gegnum lífið með glæsibrag.

Skildu eftir svar