Hugleiðingar á meðan hænufetin bætast við.

Það er ótrúlegt, miðað við það hvað hvert hænufet er stutt, að maður skuli taka eftir því hvað daginn er að lengja. Nú hefur hann sem sé lengst um eitthvað í kringum 20 hænufet og það sést.  Það dugar mér bara ekki alveg núna því mér finnst þessir mánuðir janúar febrúar alltaf svo leiðinlegir mánuðir. Nú er t.d. allur ljóminn sem tilheyrði jólunum farinn og það vantar eitthvað sem lífgar uppá. Þess vegna er það sem ég drekk í mig allar auglýsingar um sólalandaferðir á þessum tíma – Ekki síst til Tenerife, en þangað vorum við Haukur búin að ákveða (fyrir hrun) að fara árlega á þessum árstíma og ég kemst í hæstu hæðir og læt mig dreyma um sólarstrendur og hita.

Æ, hvers vegna er ég að ausa þessu yfir þig kæra dagbók og láta þetta svekkja mig.

Nei, nú er mál að líta í aðrar áttir,  því þá sér maður að það er nú kannski ekkert svo slæmt að komast ekki í draumaferðina. Þú tekur eftir því dagbók mín kær, að ég segi kannski því ég á eftir að sannfæra sjálfa mig aðeins betur.  En ég lifði nú til dæmis alveg af síðasta ár án þess að fara til útlanda og af hverju skyldi ég ekki gera það núna. Svo eru aldeilis spennandi tímar framundan í marz/apríl. Guðbjörg og öll barnabörnin mín nema eitt eiga afmæli í marz og svo er von á fimmta barnabarninu alveg í byrjun apríl og hver veit nema það flýti för og komi líka í marz svona til að bregða ekki út af fjölskylduvenjunni. Já það verður nóg að gera þegar vorið nálgast og margt að hlakka til.  Á meðan fylgist ég bara með því að dagurinn lengist um hvert hænufetið af öðru.

Ég hitti mína allrabestu í dag og við sátum lengi, þá meina ég í svona þrjá tíma, á kaffihúsi í Smáralindinni og við höfðum það svo huggulegt.  Ég segi alltaf að það sé eins og að fá vítamínsprautu að hitta hana vinkonu mína og það hefur aldrei brugðist.

Ég var svo áðan að fletta upp í bókinni minni um hamingjuna og opnaði hana á þessari lesningu sem ég ætla að setja hérna í restina. Þessi setning leiddi líka huga minn að því hvað það er gott og dýrmætt að eiga mínútur til þess að njóta.

Hvert eitt okkar getur valið þann kost,
að eyða því sem eftir er ævinnar
í gleði og hamingju, jafnvel þó það sé
bara ein einasta mínúta.

Svo er reyndar önnur lesning á blaðsíðunni á móti sem ég í tilefni af deginum í dag læt fylgja líka.

Á ánægjustundum er hamingjan sem við
deilum með öðrum, besta gjöfin sem ein
manneskja getur gefið annarri. 
 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Hugleiðingar á meðan hænufetin bætast við.

  1. Já daginn er farið að lengja og stutt í meiri birtu. Dásamleg tilhugsun. Allar páskaferðir að seljast upp í sólina…golfferðir uppseldar og „skíðin“ seljast vel! Eitthvað finnst með hljóð og mynd ekki fara saman á þessum síðustu og verstu! Förum bara saman í Austurkotið „one day“ með kærri yfir.

  2. Ragna says:

    Sæl Guðlaug mín. Já ég tek þig sko á orðinu og er til hvenær sem er.
    Ættum við kannski að gera þeim hjúum viðvart að von sé á gestum 🙂

  3. Katla says:

    Janúar fyrir mér er mánuður til að koma sér aftur á jörðina eftir allt jólastússið og velmegðina í kringum þá ágætu hátíð. Svo er Janúar líka upphafið á nýju ári, sem mér finnst alltf svo skemmtilegt.
    Í febrúar á ég svo afmæli ásamt fleirum úr minni fjölskyldu, svo mér þykir sérstklega vænt um hann.
    Mér sýnist annars svo mikið um að vera hjá þér og margs til að hlakka til, að það getur ekki annað verið en bjartsýniskonan þú siglir í gegnum þessa mánuði. Svo áttu líka svo fína og góða heilræðabók um hamingjuna: )

  4. Ragna says:

    Já þetta er rétt hjá þér Katla mín og engin þörf að kvarta. Stundum lætur maður bara langanir sínar taka stjórnina smá stund og lyfta sér í hæstu hæðir, en svo kemur maður auðvitað niður úr skýjunum fljótt aftur.

  5. Svanfriður says:

    Ohhh,það verður yndislegt að fá eitt glænýtt í fjölskylduna:)
    Ég er alveg sammála þér með jan og feb…ekki skemmtilegir mánuðir en þó er það góða að það fer að hlýna og það er nú aldrei leiðinlegt.
    Alltaf gott að kíkja í kaffi og hver veit nema að þið komist í sólina í ár.Góðar kveðjur.

Skildu eftir svar