Allt í gangi.

 EM í handbolta byrjað og vonandi verður blússandi gangur hjá þeim í næstu leikjum þó þeir yrðu að sætta sig við jafntefli í kvöld.

Svo er Haukur að verða langafi – vonandi í kvöld því allt er í fullum gangi og bara beðið frétta.

Tvær dætur Hauks sem búa í Danmörku hafa verið á landinu undanfarið. Önnur þeirra er að verða amma og dóttir hennar að gera Hauk að langafa.  Ég á nú eftir sð stríða honum svolítið með því  – alltaf sami ótugtarskapurinn í manni. 
Við héldum smá Þorrablót um síðustu helgi þó enn vantaði viku upp á sjálfan Þorra. Mikið er nú Þorramaturinn alltaf góður og hákarlinn var alveg sérstaklega góður. Það er langt síðan ég hef fengið glerhákarl. Ég mæli með því að kaupa hann í Fjarðarkaupum.  Að fá glerhákarl núna minnti mig svo á gamla tímann þegar Edda Garðars vinkona mín var að bjóða mér upp á hákarl sem pabbi hennar verkaði. Ég lærði sem sé að meta hákarl þegar ég var níu ára gömul og held enn mikið uppá hann – sérstaklega glerhákarlinn sem mér finnst hreint sælgæti.

Annars leit borðið svona út áður en sest var að snæðingi. 

dkheimsokn2.jpg

og hér er svo verðandi amman með langafanum.

dkheimsokn1.jpg
Svo aðeins úr daglega lífinu.

Ég er að reyna að hífa mig upp í að fara aftur að gera einhverjar æfingar af viti. Í morgun setti ég gömludansadisk í tækið og hoppaði og skoppaði um öll gólf í góða stund með eins kílóa lóð í höndunum og þóttist vera í erobikk eða einhverju voða fínu. Í framhaldi af þessu, þegar diskurinn var búinn þá kom morgunleikfimin í útvarpinu og þá var tilvalið að fá háls og herða leikfimina þar. Síðan var bara að teygja. Þetta var sko fínasti leikfimitími, en mikið var ég ánægð að búa á þriðju hæð og engin hús hærri í kring. Fólk sem hefði séð inn um gluggan hefði fengið hláturskrampa svo það er gott að þurfa ekki að hafa slíkt á samviskunni.  Vonandi  dettur nú botninn ekki úr þessu hjá mér því þetta er fínt og reynir bara heilmikið á þolið. Ég hef verið það slæm af gigtinni undanfarið að ég ætla að hita mig upp með svona hoppi/skoppi þangað til ég verð nógu góð til að komast í Nautulus.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

5 Responses to Allt í gangi.

  1. þórunn says:

    Mikið er þorraborðið glæsilegt hjá þér, ég fæ sko vatn í munninn. Getur verið að ég sjái lifrarkæfuna þína á borðinu?
    Vonandi er litla krílið komið í heiminn og Haukur orðinn langafi, hann virðist varla hafa aldur til að bera þann titil, hvað þá amman, kornung stúlka. Bestu kveðjur til ykkar í „Danssölum“

  2. Ég verð nú bara svöng að sjá kræsingarnar. Vonandi er Haukur orðinn langafi núna og allt gengið vel, en það gerir þig mín kæra að eins konar ská langömmu! Dansaðu svo frá þér gigtarskömmina með kærri í bæinn.

  3. Ragna says:

    Mikið ertu nösk Þórunn mín að sjká lifarakæfuna. Ein dóttir Hauks er svo hrifin af þessu svo ég ákvað að hafa hana með þorramatnum.
    Haukur varð langafi í nótt þegar 14 marka strákur kom í heiminn.
    Takk fyrir góðar kveðjur báðar tvær.

  4. Eva says:

    Takk, takk 🙂
    Þakkir fyrir frábæran þorramat og yndislegheit eins og þín er von og vísa Ranga mín. Allir biðja að heilsa.

  5. Katla says:

    Til hamingju bæði tvö með langömmubarnið!

Skildu eftir svar