Það þarf oft svo lítið til

að gleðja sálina. Í dag skein sólin og veðrið var svo yndislegt. Ég dreif mig því út í morgun og fór í langan göngutúr. Það var kominn tími til að reyna að komast upp á lappirnar aftur eftir áramótin. Þetta rigningarveður og rok undanfarið með tilheyrandi myrkri hefur alveg verið að fara með mig og ég man bara ekki eftir því að hafa nokkurn tíman dottið svona niður í leiðindi eftir áramót.  Skýringin er líklega sú hvað það hefur verið dimmt og drungalegt í þessari veðráttu, svo hefur heldur ekki verið neitt sérstakt á döfinni hjá mér. Það er einhvern veginn þannig, að ég þarf svo mikið á því að halda á þessum tíma að hafa eitthvað til að hlakka til.  Ég er hvílíkt búin að reyna Pollyönnuleikinn, en hann hefur bara ekki alveg dugað mér eins vel núna og venjulega. Ég tel mig svo sem með lausn á svona vandamáli, bæði fyrir mig og aðra gigtveika heldriborgara. Það er að fara í sól og hita eftir áramót okkur til hressingar á líkama og sál – og koma svo heim í vorið.

En, Það þurfti sem sé ekki mikið til að bjarga deginum í dag, því þegar svona fallegur dagur er upprunninn, þá bara breytist allt og eftir að láta loks verða af því  í morgun að fara í göngutúrinn – þá var ég aftur orðin glöð og bjartsýn og eins og ég á að mér að vera og sjá, mig langaði meira að segja til að setja loks eitthvað inn á dagbókina mína. Mikið er nú gott að ekki þurfti meira til en smá sólargeisla.

Svo er það einhvern veginn þannig að eitt leiðir af öðru.  Vinkona mín sem ég var mikið  með í félagsstarfi  þegar ég bjó á Kambsveginum hringdi um hádegið í dag og var að bjóða mér ásamt annarri vinkonu í mat á föstudagskvöldið. Brúnin lyftist því sífellt og mikið hlakka ég til að hitta þær stöllur.

Hjálpið mér nú kæru vinir sem villist hér inn, að biðja um gott veður á morgun líka.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Það þarf oft svo lítið til

  1. Þórunn says:

    Sól, sól skín á mig….
    Það er nú gott að heyra að þú ert öll að koma til eftir að blessuð sólin fór að láta sjá sig. Það er rétt hjá þér það þarf oft ekki svo mikið til að lundin léttist og þá virðist allt svo auðvelt.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla
    Þórunn

Skildu eftir svar