Það sem hringsnýst í huganum í dag.

Ég sit hérna við eldhúsgluggann minn og horfi á rauðleita birtuna frá sólinni sem gægist upp á himininn. Það bendir allt til þess að þetta verði yndislegur dagur.

En kannski einmitt þegar maður upplifir svona fegurð þá reikar hugurinn og þá gjarnan til þeirra sem eiga um sárt að binda og eru ekki í standi til að njóta. Ég var að hlusta á útvarpið eldsnemma í morgun og fór meðal annars inn á Lindina en þar var í viðtali sá sem sér um að safna vörum í hjálparskipið sem á að fara til Haiti. Hann sagði að fyrir utan tjöld og ábreiður þá vanti mest þurrmat og VATN.
Já vatnið sem við Íslendingar eigum svo mikið af.  Það er eitthvað svo sjálfsagt hjá okkur að eiga nóg af vatni og við höfum aldrei kynnst því að þurfa að spara vatnið. Það kemur okkur kannski til þess að sjá vatnsauðlindina okkar í öðru ljósi þegar við heyrum  svona fréttir. Fyrir okkur er þetta svo sjálfsagt en svo heyrum við að líf heillar þjóðar velti ekki síst á því að það berist nægilegt neysluvatn. Ég var að hugsa um það hvort það væri ekki bara hægt að senda heilt tankskip með íslensku vatni þarna út. En ein hugsun leiðir að annarri. Það er líklega ekki mikið um ílát sem fólk getur gripið og komið með til að sækja vatn í. Nei, þarna grípur fók hvorki eitt né annað þegar allt er í rúst.  

Við tölum um kreppuna hér uppi á Íslandi. Við sem erum fædd um og eftir miðja síðustu öld  og síðar, vitum sko ekkert hvað kreppa er, þó forfeður okkar hafi margir kynnst því og þurft að hafa mikið fyrir þvi að sjá sér og sínum farboða eins og maður heyrir um í gömlum frásögnum. Ég ætla ekki að gera lítið úr því.  Sem betur fer eigum við það vel skipulagt hjálparstarf á vegum þjóðkirkjunnar og annarra líknarfélaga að það á enginn að þurfa að vera matarlaus á Íslandi í dag.

Ekki var talað um kreppu þegar ég var að alast upp og var þó ekki einu sinni til ísskápur heima hjá mér fyrstu árin mín, hvað þá bill á heimilinu. Flíkur voru notaðar þar til ekkert var eftir af þeim.  Þegar eldri systur mínar höfðu notað flíkina þá var efninu snúið við og mamma saumaði eitthvað fallegt upp úr því á mig. þetta var kallað að venda.  Svona var allt fullnýtt og allir undu glaðir við sitt.  

Auðvitað á maður ekki að vera að bera saman þennan gamla tíma við það sem er í dag,  því tíðarandinn hefur vitaskuld breyttst.  Fólk sem hefur fæðst á síðustu áratugum þegar allir hafa átt allt af öllu og mikið meira en það og óþrjótandi tækifæri til náms og starfa, eiga vitaskuld erfiðast með það í dag að þurfa að láta á móti sér að gera það sem það langar til.  Ég heyrði t.d. um menntaskólapilt sem var fúll yfir því að meiga ekki fara með vinum sínum í páskaferð til sólarlanda í vor. Af hverju mátti hann það ekki ? – það var ekki af illsku einstæðu móðurinnar heldur af því að hún á ekki til peninga fyrir slíku.  
Þetta á margt ungt fólk erfitt með að skilja í dag.  "Bíddu, af hverju notarðu ekki bara VISAÐ????" er þá gjarnan spurt.

Við erum orðin svo vön allsnægtunum að við gerum okkur held ég enga grein fyrir þvi hvað við höfum það rosalega gott hérna.  Ekkert okkar hefur t.d. upplifað styrjöld eða annan stríðsrekstur og ekki þurft að senda eiginmenn eða syni í slíkt, svo dæmi séu tekin.

Hjálpi mér hvað ég er búin að fara út um víðan völl, en þetta er bara það sem hefur verið að hringsnúist í höfðinu á mér þennan morguninn.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Það sem hringsnýst í huganum í dag.

  1. Það er hreint allt í lagi að láta hugann reika, þó svo það sé ekki til annars en að minna okkur á hvað við höfum það í raun gott. Á margan hátt mega gömlu dagarnir koma aftur, og við skulum ekki gleyma að innprenta unga fólkinu að veraldlegar allsnægtir gera lífið ekki að Lífi. Kærust í bæinn þinn.

  2. Eva says:

    Kreppan kemur ekkert fram í því að fólk hætti að leyfa sér allskonar lúxus. Það er ömurlegt en samt staðreynd að þegar krappir að, byrjar fólk ekki á því að spara óþarfa, heldur þær nauðsynjar sem það getur verið án. Það fyrsta sem við hættum að setja pening í er öryggisbúnaður. Næst kemur fyrirbyggjandi heilsugæsla. Eftir 5 ár munu Íslendingar ennþá kaupa áfengi og tóbak. En þeir verða hættir að kaupa barnabílstóla og fara í reglubundið eftirlit til tannlæknis. Menntun verður líka einhæfari og aðeins í boði fyrir þá sem eiga peninga. Og það er þetta sem málið snýst um. Kreppan skilar veikara samfélagi, sem merkir líka að fólk mun fyrr svelta sig en að losa sig við stöðutáknin.

  3. Ragna says:

    Þetta er auðvitað hárrétt hjá þér Eva mín og maður sér þetta svo sem í kringum sig. Ég var eitt sinn stödd í búð þar sem kona hélt á saltkjötspakka, hún sneri sér að mér og sagði að þetta væri nú orðið svo dýrt að maður bara keypti það ekki og hún lét pakkann frá sér aftur. Ég var síðan fyrir aftan hana við kassann þar sem hún keypti 3 pakka af sígarettum. Kommentið þitt fékk mig til að rifja þetta upp.

Skildu eftir svar