Sundurlaust hjal.

Það líður hver vikan á ógnarhraða.  Það hefur nú ýmislegt á daga mína drifið þó ég hafi verið alveg óheyrilega löt að skrifa í dagbókina mína.  Málið er að fyrir utan þessa venjulegu leti, þá er ég nefnilega að sauma smávegis í bútasaumnum og saumavélin dregur mig þó nokkuð til sín m.a. á kostnað dagbókarinnar.

Ég er alltaf með plön um að fara að rækta betur vinskapinn við gamla vini sem ég hef ekki hitt lengi. Góðir vinir eru nefnilega eins og falleg blóm. Hvorttveggja gleður, en til þess að góð blómgun náist og til að halda lífi í, þá þarf að hlú að ræktuninni.  Það hellist stundum yfir mig hvað ég hef vanrækt að hitta gamla vini mína.  Ég hugsa svo oft til þeirra sem ég hef verið samtíða og mig langar til að rifja upp gamlan og góðan vinskap, en svo líður bara tíminn og ég geri ekkert í málinu.

Ég var því mjög ánægð um daginn þegar Helga Guðmunds, sem var mikið með mér í kirkjustarfinu fyrir Áskirku á sínum tíma varð fyrri til framkvæmda og  hringdi til að bjóða mér í mat ásamt annarri vinkonu  frá sama tíma.  Það var svo gaman að vera með þeim stöllum þetta kvöld og ekki skammaði gómsæti maturinn uppá. Mér fannst ég bara öll lifna við og ég er ákveðin í að vera dugleg að hitta gamlar vinkonur í apríl þegar Haukur fer til Danmerkur en ég verð heima. Tilvalið að nota slíkan tíma til að hitta vinkonurnar sem ég hitti svo sjaldan.
Gamli góði saumaklúbburinn mínn er nú enn í fullu fjöri og við hittumst hálfs mánaðarlega svo ég þarf ekki að kvarta yfir að hitta engar vinkonur. Það eru hins vegar þessir gömlu vinir sem ég var í miklu sambandi við á sínum tíma, sem hafa orðið svo mikið útundan og það er ekki eins og það á að vera.

Marsmánuður er sá mánuður ársins sem svo sannarlega heldur mér á tánum.  Nú fer nefnilega í hönd sá tími sem flest barnabörnin mín eiga afmæli auk Guðbjargar minnar þ.e.  10., 19., 20., og 26. marz. Svo er ekki að vita hvoru megin mánaðamótanna litla stúlkan hennar Sigurrósar minnar og Jóa lítur dagsins ljós. Það eru því skemmtilegir og spennandi tímar framundan. 

Svo bíð ég spennt eftir því að fara á næsta fimmtudag í tékkun á HL (hjarta- og lungnastöðinni) í Hátúni, en hjartalæknirinn sem ég var sent til eftir Reykjalund, taldi að það væri mjög gott að koma mér aftur í góða hreyfingu undir eftirliti, og ég byrja sem sé á því að mæta þarna í skoðun og þolpróf á fimmtudaginn og svo vonandi beint í æfingaprógram eftir það.  það er svo ótrúlega erfitt að komast aftur í gang eftir svona stopp á því sem maður var vanur að gera.  Ef ég verð tekin þarna inn í HL stöðina, þá hlýt ég að ná þeim árangri að komast í framhaldinu til að æfa í Nautulus hérna niður frá.

Jæja, enn einu sinni varð párið hér um allt annað en ég hafði í huga. Ég er hins vegar svo vegin því að hafa loksins komið einhverju á blað að ég ætla að láta þetta sundurlausa hjal mitt  flakka.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Sundurlaust hjal.

  1. þórunn says:

    Hjal er svo notalegt
    Ég bíð alltaf spennt eftir skrifunum þínum Ragna mín, þau verða einmitt svo persónuleg og einlæg þegar spjallað er svona eins og þú gerir. Ég er ódugleg við svona spjall en því duglegri að setja myndir á mitt blogg, en það er einmitt það sem gerir bloggheima svo áhugaverða, hver ritari hefur sinn stíl. Ég get ekki séð annað en mánuðurinn verði fljótur að líða við veisluhöld að ég tali ekki um að fagna nýjum meðlim í fjölskyldunni.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla.

Skildu eftir svar