Í vikulokin.

Þá er þessi vika á enda.  Hún átti að enda á því að fara í afmælisveislu til Rögnu Bjarkar á morgun en Sigurrós varð svo veik af magapest í nótt að það var bókað mál í morgun að það þyrfti að blása afmælisboðið af. Koma tímar og koma ráð, það er önnur helgi eftir þessa helgi.

Annars fara afmælin að detta inn núna í marz, eitt af öðru og svo er auðvitað spurning hvenær minnsta prinsessan ákveður að láta sjá sig, en það fer nú líka að líða að því. Hver veit nema það bætist enn einn marsbúinn við þá sem fyrir eru. Það er svona spurning hvort hún velur sér að koma í marz eða apríl.

Við Haukur drifum okkur í bíó í gær og sáum Loftkastalinn sem hrundi, en það er þriðja myndin í seríunni um hana Lisbeth Salander. Mikið hefur verið gaman að sjá þessar myndir sem eru mjög vel leiknar og persónurnar með svo sérstakan karakter (svo notað sé mál íþróttafréttaritaranna)  sérstaklega Lisbeth sjálf sem er í raun mjög óvenjulegur karakter á hvíta tjaldinu.  ´
Eg mæli með því að þeir sem ekki hafa séð myndirnar taki þær á DVD , byrji á þeirri fyrstu og sjái þær allar þrjár.

Í gær fór ég líka í þolpróf og tékkun á Hjarta- og lungnastöðinni og á að mæta þar í æfingar í næstu viku.  Fínt að fara að komast aftur í góðar æfingar svo ég komist í gott form fyrir sumarið.  

Annars gengur bara allt sinn vanagang. Það var saumaklúbbur á mánudaginn og svo fórum við tvær á kaffifund í Gigtarfélaginu um miðjan dag á þriðjudaginn hjá hjópi sem kallar sig Birtuhópinn. þarna hittast hressar konur, ýmist með handavinnu eða ekki og spjalla saman, hlæja og  fá sér saman kaffisopa.  Mig hefur lengi langað til að mæta þarna því ég hef svo oft fengið tilkynningar um  þessa fundi, en hef einhvern veginn ekki lagt í að fara ein – nú erum við ákveðnar í að fara þetta reglulega og sú þriðja úr saumó ætlar að koma með okkur næst. Þetta eru allt konur svona á mínum aldri og kannski aðeins eldri sumar, sem allar eru með gigt og eru hættar að vinna úti.   Sú sem er í forsvari og kallar hópinn saman sagði að sér hefði bara dottið þetta í hug af eigingirni því hana hafi vantað einhvern skemmtilegan félagsskap að deginum til þegar hún var hætt að vinna.  Hún hafi haft samband við Gigtarfélagið og í litlum fundarsal þar er síðan þessi hittingur einu sinni í mánuði.  Lofar góðu.

Nú er leiðinlega föstudagsmyndin sem var í sjónvarpinu búin og ég ætla að athuga hvaða seinni mynd þeir bjóða upp á í kvöld – Vonandi verður hún betri en þessi Double Agent sem var svo gjörsamlega glötuð að ég entist ekki nema í fimm mínutur við að horfa á hana.

Heyrumst síðar.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Í vikulokin.

  1. Katla says:

    Þér leiðist greinilega ekkert að vera umkringd marsbúum: D

  2. afi says:

    Marsbúar og dýralíf.
    Það er örugglega spennandi og skemmtilegt að vera innanum marsbúa. afi hefur lítil kynni af þeim hópi. Í hringum afa eru helst hrútar, naut, krabbar, sporðdrekar og bogamenn. Sjálfur er sá gamli steingeit. Vonandi verður fjör og gaman í afmælinu þegar þar að kemur.

Skildu eftir svar