Enn kveð ég – nú frænda minn.

Enn á ný er kveðjustund. Frændi minn hann Finnbogi Eyjólfsson er nú látinn.  Það gerðist nú með sama glæsibrag og annað sem hann tók sér lfyrir hendur því hann var nýkominn á fætur, settist í hægindastólinn heima hjá sér og var allur. Þetta finnst mér alveg táknrænt fyrir hann Boga sem var mikið glæsimenni og hefði ekki hugnast að þurfa að bíða sjúkur eftir þessari stund,  þó vitaskuld eigi enginn val um slíkt þá er það dásamlegt þegar fólk sem orðið er fullorðið fær að fara svona.  Það er tiltölulega stutt síðan ég hitti Boga og þá við jarðarför annars frænda. Við töluðum um það þá, að það væri bara ekki hægt að fjölskyldan hittist ekki lengur öðruvísi en við jarðarfarir.  það er mikill aldursmunur á okkur, en við erum systrabörn. Ég kynntist Boga best þegar ég átti aftur og aftur bíl frá Heklu þar sem hann vann alla tíð og ég heilsaði jafnan upp á hann þegar ég átti leið í Heklu og þegar ég var í bílaskiptum var nú gott að eiga frænda sem allt vissi um bíla og gat gefið góð ráð. ég veit að hann var oft upptekinn, en aldrei var hann of upptekinn til að taka á móti frænku og bauð jafnan inn á kontorinn sinn og spurði um alla fjölskylduna.  
Svo sé ég hann fyrir mér á ættarmótum, geislandi af gleði með harmonikuna þar sem hann stjórnaði söng af mikilli röggsemi.

Nú kveð ég þennan lífsglaða frænda minn sem alltaf var með bros á vör og geymi hann þannig í minningunni.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Enn kveð ég – nú frænda minn.

  1. Svanfríður says:

    Ég samhryggist þér með frænda þinn Ragna mín.Hann virðist hafa lifað lífinu á góðan hátt og skilið eftir góðar minningar.Kærust kveðja.

Skildu eftir svar