20. marz 1972.

Minningar mínar frá 1972 segja mér að vorið sé komið. 
Á sunnudeginum 19. marz 1972, í veðri eins og það er núna fórum við Oddur í langan göngutúr, við vorum sæl og ánægð enda von á fyrsta barninu okkar. Ég hætti að vinna á föstudeginum og ætlaði nú að njóta þess að hafa heilar tvær tvær vikur til að slappa af fyrir fæðinguna.  Þegar við komum heim úr göngutúrnum skipað bóndinn mér að hvíla mig á meðan hann hefði til miðdagskaffið. Ég lagði mig á rúmið, þó mér finndist það reyndar algjör firra að ég þyrfti eitthvað að hvíla mig þó við hefðum farið í smá göngutúr.  Bara rétt eftir að ég lagðist niður þá fann ég að ég var öll orðin blaut. Mér brá og fyrsta hugsunin var hvort það gæti verið að ég hefði hreinlega pissað í rúmið. Mér fannst þetta nú allt of mikið til þess að það gæti verið og mundi þá eftir því að stundum misstu konur vatnið í byrjun fæðingar.  Mér fannst það líka mjög ótrúlegt því ég var alveg stálslegin og ekki farin að finna fyrir neinu og barnið ekki væntanlegt fyrr en eftir tvær vikur. Ég kallað því á bóndann og sagði honum hvað hefði gerst og eftir að við höfðum ráðið ráðum okkar þá töldum við öruggast að hringja á Fæðingarheimilið og spyrja ráða.  Jú þetta væri örugglega legvatnið sem hefði farið og nú mætti ég ekki hreyfa mig neitt og ætti bara að hringja á sjúkrabíl og koma uppeftir. Við vorum róuð niður yfir þeim áhyggjum okkar að eitthvað væri að af því að barnið væri að koma tveimur vikum of snemma – tvær vikur fyrir eða tvær vikur eftir væri mjög eðlilegt.

Á þessum tíma tíðkaðist það almennt ekki að feður væru viðstaddir fæðinguna. Oddur kom því með í sjúkrabílnum og síðan varð ég eftir til þess að takast á við það verkefni að koma barninu okkar í heiminn.  Það tókst á hádegi daginn eftir. Það var þá búið að kalla í Odd og hann beið frammi og var kominn inn á stofuna þegar litla gullfallega stúlkan var lögð í fang okkar. Mikil var hamingjan.

Tíminn hefur liðið og nú er litla stúlkan orðin móðir þriggja barna og tvö þeirra barna eiga afmæli í sitt hvoru megin við hennar dag, 19. marz og 26. marz.  Pabbi hennar vakir eflaust yfir þeim úr hásölum himnanna og er ánægður með það sem hann sér.

Hún Ragna Björk hennar Sigurrósar minnar er líka nýbúin að eiga afmæli og litla systir hennar getur farið að koma hvenær sem er. Þó hún sé bókuð þann 4. apríl þá kæmi mér ekki á óvart að hún verði marsbúi líka.

Svona atburðir merkja vorið hjá mér. Oftast er veðrið svo gott á þessum tíma, en hjá mér er vor bæði í minningunni og í núinu, hvort sem sólin skín eða snjóföl þekur jörð.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to 20. marz 1972.

  1. Fallegar minningar, og hjartanlega til hamingju með allt. 4. apríl er góður dagur, þá á ég „nebblega“ afmæli! Kærust í bæinn.

  2. Katla says:

    Þetta er fallegasta vor sem hægt er að hugsa sér! Góð kveðja til þín og Guðbjargar.

Skildu eftir svar