Veður hefur áhrif – ekki spurning.

Það er ekki spurning að veður hefur mikil áhrif bæði á líkamlega og andlega heilsu okkar. Það er t.d. ekki nokkur vafi á því, að rigning og rok hefur mikil áhrif á gigtarverki og skapferli. Þetta er ekki bara gömul tugga sem notuð er til þess að hafa gaman af og gera grín að gömlu fólki í sögubókunum.  Þegar þannig viðrar þá geta Þeir sem hafa gigt sagt til um veðrið án þess svo mikið sem að kíkja út um gluggann. Þetta hef ég prufað og sjúkraþjálfarinn minn á Selfossi sagði að þetta væri sko engin spurning. Hann sagðist alltaf vita að hann ætti erfiðan dag framundan í slíku veðri því þá væru sjúklingarnir hans í sérstaklega slæmu ásigkomulagi.  Hinsvegar finnst mér allt í lagi þó það rigni ef það fylgir ekki líka mikil veðurhæð.

Svo eru á hinn bóginn svona fallegir dagar eins og sá sem var í dag. Sól og logn – okkur fannst það ótrúlegt í dag 25. marz að sitja fáklædd í sólinni úti á svölum. Við heyrðum skríkjurnar í krökkunum sem léku sér af mikilli innlifun í brekkunni hérna neðan við húsið, sumir á stuttbuxum og aðrir berir að ofan. Já fyrir utan komu lóunnar og kríunnar, þá segja börnin oft nokkuð til um vorkomuna því þau eru fljót að taka við sér og nýta sér góða veðrið.

Það er ekki spurning að heilsan er svo mikið betri þegar veðrið er svona gott. Bara það að geta sest aðeins út eða farið í göngutúr í sól og logni kemur svo mikilli kyrrð á hugann og maður finnur það á líkamanum að hann er léttari og gigtarverkirnir hafa sig ekki eins í frammi. Það verður líka allt svo fallegt, lundin verður léttari og maður beinlínis andar að sér fegurðinni.
Ég fann þetta svo vel í dag þar sem ég sat hérna úti og leyfði sólinni að kyssa mig á vangan – allar áhyggjur og vangaveltur um þjóðmál og annað beinlínis gufuðu upp og eftir var tilhlökkun og þakklæti. Tilhlökkun yfir komandi sumri og því sem það færir, tilhlökkun yfir nýja barnabarninu mínu sem væntanlegt er núna einhvern daginn. Jafnframt fylltist ég þakklæti yfir því ríkidæmi mínu að eiga yndislega afkomendur og maka þeirra sem alltaf vilja allt fyrir mig gera og leyfa mér að vera þátttakandi í lífi þeirra og barnabarnanna.  Þetta er ríkidæmi sem ber að þakka því það eru ekki allir svo lánsamir að fá að njóta samvista við afkomendur sína.

Já svona hugsanir flugu í gegnum hugann þar sem ég sat og sólin vermdi mig í dag. Ég sá á veðurspánni áðan að við fáum fleiri svona daga. Ég hlakka til að vakna í fyrramálið og njóta.

Þessa mynd tók ég út um eldhúsgluggann klukkan átta í kvöld
þegar sólin var um það bil að setjast.

solarlag_marz10.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to Veður hefur áhrif – ekki spurning.

  1. Stefa says:

    Dásamlega fallega orðað hjá þér Ragna mín. Það er svo sannarlega vert að njóta þess sem maður hefur – sérstaklega þegar afkomendurnir eru jafn yndislegir og þínir ;o)

  2. Það er þó satt og rétt, veðrið hefur áhrif líf og limi. Sendi stórt knús á þig og þína.

Skildu eftir svar