Gleðilega páska.

Dymbilvikan að baki og komnir páskar. Ég er nú löngu hætt að borða páskaegg en ég hlakka til að borða með fjölskyldunni páskamatinn og eiga góða stund öll saman.  Það er líka spennandi að vita hvort litli páskaunginn þeirra Sigurrósar og Jóa  kemur í heiminn á morgun eins og tölfræðin hefur spáð. það er nú ekki alltaf sem litlu ungarnir fæðast alveg á réttum degi – en mikið væri það nú gaman.

Við skruppum í smá bíltúr um miðbæinn í dag og kíktum m.a. í Kolaportið  þar sem mikið var af fólki. Þegar við komum þaðan út sagði ég við Hauk að mér finndist eitthvað það í loftinu sem segði mér að nú væri vorið komið. Í því éljaði á okkur og Haukur spurði hvort þetta væri ástæðan fyrir því að mér finndist komið vor.  Já, þrátt fyrir éljagang í dag þá er ég bara alveg viss um að vorið er komið og ég ætla bara að halda mig við það.

Dymbilvikan hefur verið róleg hjá okkur og við höfum ekkert farið. Við erum með næturgest þessa dagana, Evu dóttur Hauks sem býr í Danmörku en er stödd hér heima til þess að fylgja út hlaði nýrri bók.  

Við höfum auðvitað verið spennt eins og aðrir landsmenn út af gosinu í Eyjafjallajökli, en látið okkur nægja að skoða myndir af því á Facebook enda mikið um frábærar myndasyrpur þar. Ég er svoddan hræðsluskítur að ég þyrði líklega hvorki með þyrlu eða vélsleða þó svo að mér byðist það. Að fara gangandi að gosstöðvunum er ekki fyrir þá sem ekki eru í neinni þjálfun, þó margir slíkir hafi ætlað sér á staðinn og treyst á að björgunarsveitir hjálpi ef eitthvað bjátar á. Mig sundlar nóg að skoða myndir þar sem fólk sést standa fremst á gilbörmum á snjóhengjum sem gætu fallið niður hvenær sem er. Úff.  Mér finnst ekki sanngjarnt hvað fólk treystir á að björgunarsveitir komi því til hjálpar þegar það er sjálft búið að koma sér í aðstæður sem það mátti vita að það réði ekkert við.  Það eru alveg ótrúlegar sögurnar sem maður hefur heyrt af fólki þarna.  Ein vinkona mín sagði að bróðir vinnufélaga hennar hefði orðið vitni að því að ungt par var að leggja af stað í 10 – 15 klukkustunda göngu með þriggja mánaða gamalt barn í burðarpoka framan á sér. Hann hringdi sem betur fer beint í lögregluna og bað um að fólkið yrði stoppað. Þennan dag var 10 stiga frost og vindur. Ég bara spyr – er fólk búið að missa algjörlega vitglóruna. 
Ég missi mig bara alveg yfir svona rugli og ég spyr líka. Eru björgunarsveitarmenn sem hafa verið þarna til aðstoðar frá byrjun goss á launum eða í sjálfboðavinnu? Ég ætla bara rétt að vona að þetta sé ekki launalaust starf sem þeir inna af hendi þarna.  Jæja, ég ætla að róa mig niður því það er ekki gott að fara beint inn í páskahelgina svona öskureið eins og ég verð þegar ég  hugsa um þetta.

Nú róa ég mig niður og hugsa um eitthvað fallegt svo mig dreymi vel í nótt. Við heyrumst síðar.

Ég óska ykkur öllum yndislegra páska
og vona að þeir sem hafa verið að ferðast 
komi heilir heim úr páskaferðunum sínum.

paskablom.jpg
 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Gleðilega páska.

  1. þórunn says:

    Páskakveðja
    Gle’ilega páska, Ragna mín og Haukur.
    Ég er þér hjartanlega sammála vegna framferðis fólks í kringum gosstöðvarnar. En ég væri til í að fara smárúnt með þyrlu þarna yfir ef ég ætti þess kost. Ég held a það væri svo mikil upplifun.
    Það verður spennandi að sjá hvort spáin með fæðinguna rætist.
    Bestu kveðjur til ykkar allra frá Palla og mér.

  2. Gleðilega páska í bæinn þinn. Lofaðu okkur að fylgjast með nýjum fjöskyldumeðlimi. Hér fæddist lítil stelpa í dag og mér finnst náttúrulega að hún eigi að heita í höfuðið á mér!

  3. Katla says:

    Fyndið þetta með vorið og élið! En ég er alveg sammála þér, vorið er komið. Ég finn það á tilhlökkuninni sem byrjar alltaf að hreiðra um sig hjá mér þegar vorar, þrátt fyrir páskahretið. Gleðilegan annann í páskum kæra Ragna: )

Skildu eftir svar