Enn á ný eignast ég ömmubarn.

Í dag var gæfan mér enn einu sinni svo hliðholl að mér fæddist yndisleg ömmustúlka sú þriðja í röðinni af stúlkunum og mitt fimmta barnabarn. Sigurrós mín og Jói sáu um það í þetta sinn, og þau gáfu nýfæddu dótturinni strax nafnið Freyja Sigrún. Allt gekk mjög vel og þau fá að gista í fjölskylduherbergi  á Fæðingardeildinni í nótt.  Áður en lengra er haldið þá er hér mynd af ungu dömunni í sinni fyrstu vigtun á lífsleiðinni sem framundan er.

 freyja_sigrn_05.04.10.jpg

 Í nótt dreymdi mig að Sigurrós hringdi og segði " Mamma, ætli það sé ekki tímabært núna að þú komið og verðir hjá Rögnu Björk" . Ég vaknaði og þetta var svo raunverulegt að ég þorði ekki annað en kíkja á símann sem ég var með á náttborðinu til að athuga hvort Sigurrós hefði raunverulega hringt og ég sofnað aftur.  Ekkert símtal hafði átt sér stað. Hinsvegar hringdi Sigurrós um ellefu leytið um morguninn og sagði þetta við mig og ég var ekki lengi að fara til hennar litlu nöfnu minnar svo þau mamma og pabbi gætu farið að sinna því að koma litlu systur í heiminn.  Ragna Björk sagði mér, að mamma og pabbi væru að fara til þess að hitta lækninn og biðja hann að hjálpa litlu systur út úr bumbunni á mömmu. Hún var mjög sátt við þessa skýringu og kvaddi þau brosandi þegar þau fóru. Ég var hjá henni fram yfir hádegið en þá kom afi Jenni með fullt af brauði og þau fóru saman til þess að gefa öndunum og Kári frændi fór með þeim.  Síðan kom litla manneskjan aftur til ömmu og fékk sér góðgæti í kaffitímanum, en fór síðan með ömmu Björk til þess að vera hjá henni í nótt.  Ragna Björk fær svo að fara með ömmu Björk í dag á fæðingardeildina  til þess að sækja litlu systur, svo fara þau öll saman heim.

Þetta gekk rólega hjá Sigurrós framan af degi, og þau skruppu út af fæðingardeildinni til þess að fá sér eitthvað í svanginn og í smá göngutúr í góða veðrinu, en komu svo aftur upp á deild um hálf þrjú og um hálf sjö var Freyja Sigrún komin í heiminn.
Við Guðbjörg skruppum uppeftir að sjá og hitta þá nýfæddu, en Haukur var heima hjá matargestunum, dóttur hans og fjölskyldu hennar,  sem voru hjá okkur.  Það héldu ömmu auðvitað engin bönd þegar hún fékk tilkynningu um að nú mætti koma til að sjá. 

Ég er svo ánægð með öll barnabörnin mín og finnst ég hafa verið margfaldlega blessuð að fá að eignast yndislegar dætur og með þeim fimm barnabörn.  Ég óska litlu Freyju Sigrúnu og þeim öllum blessunar um ókomin ár og bið þeim góðrar heilsu og verndar á lífsleiðinni.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

7 Responses to Enn á ný eignast ég ömmubarn.

  1. þórunn says:

    Hamingjuóskir
    Kæra Ragna og fjölskylda, mér finnst heiður að því að fá að vera fyrst til að senda ykkur hamingjuóskir hér á heimasíðunni. Ég þekki þessa tilfinningu að finnast maður varla koma við jörðina vegna hamingju með nýfæddan fjölskyldumeðlim. Bestu óskir til ykkar allra, færðu foreldrunum kveðjur frá mér og Palla.

  2. Ragna says:

    Ég var að heyra hjá Sigurrós, að Ragna Björk hefði ljómað þegar hún sá litlu systur sína og sagði að hún væri svo falleg.

  3. Ragna says:

    Ég þakka ykkur öllum sem hafið verið að senda hamingjuóskir í gegnum Facebook. Stórt knús á línuna.

  4. Ohoh yndisleg, og hjartanlega til hamingju.

  5. afi says:

    Bestu óskir
    Innilegar hamingjuóskir til Rögnu ömmu og foreldranna.

  6. Ingunn Ragnarsdóttir says:

    Falleg stúlka
    Mikið er hún falleg, litla daman. Óska ykkur öllum til hamingju með hana. Nafnið er mjög fallegt.
    Ragna við hittumst hjá Birgitt á fimmtudaginn það verður gaman. Kv. Ingunn

  7. Ragna says:

    Takk fyrir góðar kveðjur allir.
    Ingunn mín. Já ég hlakka mikið til að hitta ykkur hjá Birgit.

Skildu eftir svar