Dapurlegir atburðir í okkar þjóðfélagi núna.

Það er nú svo mikið að gerast í þjóðfélaginu núna að það  er bara ekki hægt að halda því frá dagbókinni minni og láta bara eins og ekkert sé.

Þegar skýrslan um hrunið kom út, þá var það ekki bara að okkur almenningi byði við öllum þeim svikum og vélráðum sem þar voru tilgreind og okkar litla þjóð hafði orðið fyrir, heldur bylti jarðskorpan sér af ógeðinu og Eyjafjallajökull beinlínis ældi og það ekkert smávegis.

Þetta er vitaskuld mikið alvörumál og mikið vorkenni ég fólkinu sem aftur og aftur þarf að rýma heimili sín og fara í hjálparmiðstöðvar í snatri til þess að flýja undan flóðbylgjum úr fjallinu ofan við.  það hlýtur að vera óskaplega erfitt fyrir bændur að fara þannig í burtu og þurfa að skilja allan búpening sinn eftir án þess að vera vissir um að þeir komist aftur heim í tæka tíð til þess að brynna dýrunum – Svo hlýtur líka að vera óskaplega erfitt að sjá  túnin sem voru að byrja að grænka nú með þykku eitruðu öskulagi yfir og á sumum bæjum var byrjaður sauðburður. Já þetta er alveg skelfilegt og enn skelfilegri er tilhugsunin um að samkvæmt sögunni muni Katla síðan  spýja af enn meiri krafti  – Hvenær?  Það veit í raun enginn þó allir viti að spurningin er ekki hvort heldur hvenær.

Enn sem komið er hefur vindáttin verið þannig að við hér á suðvesturhorninu höfum ekki orðið fyrir neinu öskufalli og getum við verið þakklát fyrir það.  Eftir fréttir í sjónvarpinu um að öll flugumferð í Evrópu hafi legið niðri í dag, þá var sýnt yfir svæði þar sem þúfur og tún voru með þykku gráu öskulagi og vesalings útigangshross litu út eins og úðað hafi verið yfir þau sementsblöndu. Þetta var mjög óhugnarlegt og mér fannst ég vera að horfa á einhvern framtíðartrylli þar sem jörðin var öll komin í eyði.  Mér varð bara óglatt við tilhugsunina.

Já það er ótrúlegt að tiltölulega lítið eldfjall á Íslandi skuli í dag hafa lamað allt flug í Evrópu – Svo er líka svo skelfilegt að þetta skuli einmitt koma núna þegar við þurfum á öllu okkar að halda til þess að auka útflutningsverðmæti og afla tekna fyrir okkar aumu þjóð. Nú liggur fiskur fyrir skemmdum því hann kemst ekki ferskur á markaði erlendis, ferðaþjónusta liggur öll niðri og kemur sjálfsagt til með að gera í langan tíma  og allt eftir því.

þetta er eitthvað svo óraunverulegt og óhugnarlegt að maður vonar bara að maður vakni og komist að því að þetta hafi verið martröð.  

Nú verðum við sameinast um að biðja alla góða vætti að vaka yfir landinu okkar og blessuðu fólkinu og skepnunum sem þetta bitnar mest á og einnig yfir öllum björgunarsveitarmönnunum sem leggja til sitt óeigingjarna ólaunaða starf og hika ekki við að leggja sig í hættu til þess að hjálpa öðrum. 

Hver veit nema við verðum það lánsöm að okkur leggist eitthvað gott til bjargar.  það er auðvitað alveg nauðsynlegt að trúa því til þess að þjóðin leggist ekki í algjört þunglyndi.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

3 Responses to Dapurlegir atburðir í okkar þjóðfélagi núna.

  1. Guðlaug Hestnes says:

    Já, þetta er hrikalegt. Ég finn svo til með íbúunum undir fjöllunum. Kær kveðja.

  2. þórunn says:

    Dapurlegt
    Þetta er sorglegra en tárum taki, fyrst þetta alsherjar hrun þjóðarinnar og svo þessi gos. Gott er þó til þess að vita að þetta seinna gos hefur ekki kostað mannslíf en fólkið sem býr á þessu svæði og á skepnur sem þarf að sinna, er ekki öfundsvert. Nú meiga góðir hlutir fara að gerast.

  3. Ragna says:

    Já Þórunn mín þá má svo sannarlega fara að gerast eitthvað gott hjá okkar litlu þjóð. Okkur var líklega ætlað að komast á botninn fyrst til þess að læra að takast á við það góða sem vonandi er í vændum.

Skildu eftir svar