Tiltekt.

Alveg er það dæmalaust hvað ég á erfitt með að henda t.d. gömlum fötum. Ég set svona til hliðar það sem ég er orðin leið á því ég get ekki hugsað mér að henda því strax, þrátt fyrir það að ég geng oft í fötum í allt að 10 ár, samt er svo erfitt ef það eru vönduð föt, að henda þeim eftir það ef lítið sér á þeim.


Í gær þegar krakkarnir voru farnir frá mér ákvað ég samt að ráðast á fataskápana hjá mér og laga til og grisja. Það getur verið bæði gott og slæmt að hafa of mikið skápapláss. Gott að láta fara vel um fötin sín í góðu skápaplássi en slæmt þegar maður fer að safna því sem maður tímir ekki að henda af því maður hefur hvort sem er pláss fyrir það. Að ég svo tali nú ekki um þegar maður er líka farinn að safna því sem aðrir ætla að henda. Ég komst í það sem Guðbjörg ætlaði að losa sig við í einhverri tiltekt og þá kom þetta “ nei, ætlarðu að losa þig við þetta, það sér nú ekkert á þessu. Heldurðu að þú notir þetta ekki einhvern tíman seinna?“  ..“jæja ég tek þetta frekar, kannski ég geti notað það“. Síðan var allt sett inn í stóra skápinn. Núna þegar ég ákvað að fara í gegnum skápana hjá mér þá lofaði ég sjálfri mér að sleppa því hér eftir að hirða það sem dæturnar  losa sig við því auðvitað hef ég ekkert notað af því sem ég tók hjá Guðbjörgu og ég ákvað líka að losa mig við eitthvað (auðvitað alls ekki allt) af gömlu fötunum mínum og þá meina ég t.d. gamlar litskrúðugar síðar blússur með herðapúðum, stóra, síða boli og buxur sem mjókka niður. Ég er nefnilega orðin úrkula vonar að þetta komist aftur í tísku á næstunni og líklega aldrei. Í dag finnst mér alla vega fáránleg þessi tíska sem var þannig að allt virtist mörgum númerum of stórt. Nú er ég með fullan stóran plastpoka af fötum hérna á svefnherbergisgólfinu hjá mér. Best að fara ekki með hann strax, ef ég skyldi nú hætta við að henda einhverju :). Ég er svona að gjóa á hann augunum og reyna að halda aftur af mér að kíkja aftur ofaní hann.  Ég ætla að gefa þessu svona klukkutíma og þá ætla ég að fara upp í Sorpu og losa mig við þetta, Líklega best að geyma það þangað til þeir loka því þá get ég ekki komið aftur ef  ég skyldi sjá mig um hönd.


Já svona er nú lífið í Sóltúninu þessa dagana.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar