GLEÐILEGT SUMAR allir nær og fjær.

Enn á ný kemur blessað sumarið og að þessu sinni eftir mjög mildan og veðurfarslega góðan vetur. Það frusu saman vetur og sumar og núna þegar ég pára þessar línur þá er fjögurra stiga frost úti en sólin er að koma upp og það er fallegt gluggaveður.

Þegar óskað er gleði og gæfu á tímamótum þá hugsar maður einnig til baka yfir farinn veg og að þessu sinni er það veturinn sem lauk göngu sinni nú á miðnætti þegar sumarið tók yfir til þess að fylgja okkur út næstu árstíðina.

Það er eins og alltaf þegar það á að fara að rifja eitthvað upp sem liðið er, að góðu minningarnar verða svo sterkar að þær eru nánast það eina sem upp í hugann kemur. Allt er svo bjart og fallegt í minningunni og það er þakkarvert að þannig skuli það vera,  því hvað er gott við það að staldra of lengi við það sem miður fer. Allt fólkið mitt hefur komist klakklaust í gegnum þennan vetur, börn og tengdabörn í fullu starfi og barnabörnin blómstra og nú á vordögum bættist í þann fjársjóð lítil stúlka sem nú vex og dafnar. 
Ég verð þó að viðurkenna að þær stundir komu nú þegar líða fór á þennan blessaða vetur og gigtin í gamla hulstrinu sem ég hef haft til dvalar frá fyrstu tíð vildi ekki láta mig í friði, þá dreymdi mig um göngutúra í ylnum á sólgullnum ströndum langt í suðri. Þær strendur eru þarna ennþá og eru ekkert á förum svo ég get haldið í drauminn og rifjað hann upp aftur næst þegar ég verð leið á vetri konungi.  Nú bíður hinsvegar hið íslenska sumar með opinn faðminn og  býður okkur að spássera með sér og upplifa allt það sem í boði er.

Ég má vera hvílíkt þakklát fyrir það að veturinn skuli hafa verið mér góður og ég ekki orðið fyrir neinum áföllum.  Það eru nefnilega ekki allir svo heppnir og mörgum hefur reynst þetta mjög erfiður og vondur vetur. Það er t.d. örugglega ekki komið sumar í huga þeirra sem sitja fastir í kolsvörtu öskufalli sem Eyjafjallajökull hefur spúið yfir sveitina. Þar horfa heimamenn á það sem áður voru tún sem brátt yrðu slegin, en eru nú eins og malbikað hafi verið yfir allt saman.  Margir hafa upplifað erfið veikindi í vetur og slys hafa orðið sem skilið hafa eftir fjölskyldur í sárum. Svo eru allir þeir sem misst hafa vinnu sína og jafnvel heimili sín.
Hvernig ætti ég að geta annað en vera þakklát fyrir mínar góðu minningum um veturinn, þegar ég hugsa um allt það fólk sem hefur verið að upplifa  jafnvel sinn versta vetur.

Á meðan ég hef setið hér við eldhúsgluggann minn með tölvuna á  borðshorninu og párað þetta snemma morguns á sumardaginn fyrsta, þá hefur sólin verið að færast enn lengra upp á himininn. Nú varpar nú geislum sínum yfir stóra golfvöllinn sem margir bíða eflaust eftir að grænki og nokkur árrisul börn í húsinu hérna fyrir neðan eru komin út með hjólin sín, reyndar ennþá í vetrarúlpunum, en þær verða örugglega fljótlega lagðar til hliðar og þá bætast sippuböndin og boltarnir við.

Já SUMARIÐ ER KOMIÐ og við skulum njóta þess, en um leið  skulum við hugsa til þeirra sem enn lifa í dimmum vetri og eiga erfitt með að sjá og hlakka til þess að sumarið sé komið.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

2 Responses to GLEÐILEGT SUMAR allir nær og fjær.

  1. þórunn says:

    Gleðilegt sumar
    Gleðilegt sumar Ragna mín og bestu kveðjur til Hauks frænda frá okkur Palla.

  2. Gleðilegt sumar mín kæra, og megi það skína skært á alla. Kveðja í bæinn.

Skildu eftir svar