það er ekki öll vitleysan eins.

Já það er sko alveg öruggt að ekki er öll vitleysan eins hjá manni.

Ég er farin að hitta hárgreiðslukonu sem ég var hjá í mörg ár en síðan lokaði hún stofunni sinni og hætti af heilsufarsástæðum. Hún hringdi síðan til mín og sagðist vera farin að taka aðeins heim og bauð mér að vera í þeim hópi sem hún ætlar að taka þannig. 
Guðbjörg mín var að vandræðast í vikunni hana vantaði svo klippingu og spurði hvort ég vildi tala við Hrefnu fyrir sig og spyrja hvort hún gæti klippt sig.  Ég fann gemsanúmerið hjá Hrefnu í númerabókinni hjá mér og hringdi nokkrum sinnum en það kom alltaf að slökkt væri á símanum. Ég var því viss um að hún hlyti að vera í burtu.  Ég ákvað þá að senda henni SMS og þau skilaboð hljóðuðu þannig:  "Má ég gefa Guðbjörgu minni símanúmerið þitt vegna klippingar í næstu viku?  Ragna Jóns." Þetta var á fimmtudaginn síðasta. Ég hef ekkert heyrt frá henni og var satt að segja búin að gleyma þessu.

Ég hef alltaf Gemsann á náttborðinu mínu og stilli hann á að vekja klukkan níu, svona svo það sé öruggt að ég sé ekki að sofa lengur en það á morgnanna. Ég vaknaði síðan við símann í morgunn, en einhvernveginn fannst mér ekki orðið nógu bjart til þess að klukkan væri níu. Það kom líka í ljós að hún var ekki einu sinni orðin sjö. Það kom einnig í ljós að þetta var ekki klukkan, heldur var ég að fá skilaboð og þegar betur var að gáð voru þau frá vinkonu minni Helgu Guðmundsdóttur og þau voru mjög undarleg. " Já alveg sjálfsagt" Kveðja Helga Guðmunds."  Ég hélt sem snöggvast að nú væri ég orðin alvarlega rugluð og ég hefði kannski sent henni skilaboð kvöldið áður og spurt hvort hún væri til í að koma með mér á málverkasýningu á Eyrarbakka í dag. Ég var nefnilega að spá í það í gær hvort ég ætti kannski að fá hana með mér, en fannst endilega þarna eldsnemma í morgun að ég hefði ekkert gert í málinu.  Ég braut nú heilann um þetta undarlega SMS og ekki möguleiki að ég næði að sofna aftur. Þá datt mér allt í einu í hug hvort það gæti verið að skilaboðin sem áttu að fara til hárgreiðslukonunnar hafi farið til Helgu Guðmunds, sem mér vitanlega hefur aldrei borið hárgreiðslu fyrir sig nema á eigin höfði.  Jú mikið rétt þannig lá í málinu. Ég hef í bókinni sem ég skrifa símanúmerin skrifað þær stöllur hvora á eftir annarri og lína á milli. Í millilínunni var gemsanúmer sem ég bókaði að tilheyrði hárgreiðslukonunni en það reyndist ekki svo.

Nú er Helga örugglega erlendis þar sem er talsverður tímamunur því hún hefði ekki farið að senda svar á þessum tíma annars. En ég hlakka til þegar hún kemur heim og ég heyri í henni og fæ að vita hvað hún hefur hugsað yfir skilaboðunum sem ég sendi henni og af hverju hún svaraði  "Já alveg sjálfsagt". Hún hefur örugglega haldið að ég væri gengin af vitinu og best væri að svara svona til að koma mér ekki í frekara uppnám. 

Já því segi ég það, það er sko ekki öll vitleysan eins.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to það er ekki öll vitleysan eins.

  1. Guðbjörg says:

    Yndislegt
    Þetta er algerlega dásamlegt. Ég fer nú að fá móral yfir að hafa ætlað í klippingu og skapað þennan misskilning ; 0)
    Guðbjörg

  2. Svanfríður says:

    Hún hefur kannski verið kát yfir að þú hafir haft trú á að hún gæti klippt þig og sagt bara já við bóninni;)

  3. þórunn says:

    Það er alveg makalaust hverju maður getur komið til leiðar með því að fara línuvillt.
    Bestu kveðjur frá okkur Palla.

  4. Katla says:

    Er Guðbjörg enn óklippt?

  5. Ragna says:

    Já þegar ég vissi síðast var hún enn óklippt enda vinkona mín enn í útlöndum ha,ha.

  6. Ragna mín, hvar ertu? Ekki ertu enn að redda klippingu! Kærust í bæinn.

Skildu eftir svar