Smá samtíningur fyrir svefninn.

Mikið getum við sem búum hérna á suð-vesturhorninu verið þakklát fyrir þetta yndislega veður sem við höfum getað notið í allt vor – mér finnst alla vega að það hafi staðið síðan snemma í vor með einum og einum degi sem hefur komið smá væta.  Ég er alltaf jafn ánægð með árstíðaskiptin okkar. Fyrst dimmu vetrarmánuðina og svo yndislega björtu vorin og sumarmánuðina. Þegar sagt er að maður kunni ekki að meta ljósið fyrr en maður hefur kynnst myrkrinu  þá á það í raun vel við árstíðirnar okkar. Ég held að ég gæti ekki vanist því að búa þar sem alltaf er sól og sumar og dagurinn alltaf jafn langur.  Nóg um þessar pælingar mínar.

Það er alltaf nóg að gera hjá mér og ótrúlegt hvað hver dagur líður hratt.  Ég er ekki búin að koma í verk helmingnum af því sem ég ætlaði að gera á meðan Haukur væri í Danmörku og nú er hann búinn að vera í 6 vikur í burtu.  Það er því betra að fara að bretta upp ermarnar og skipuleggja þessar tæpu tvær vikur sem eftir eru.

Núna um Hvítasunnuna átti ég yndislega daga með Guðbjörgu, Magnúsi Má, Oddi Vilberg og Ragnari Fannberg í sumarbústað að Stóru Skógum í Borgarfirði. Karlotta var hins vegar hjá pabba sínum um helgina. Við vorum þarna í 20°hita og logni og ég kom bara brún og sælleg heim. Það er ótrúlegt hvað það er mikil tilbreyting að komast aðeins í burtu þó ekki sé nema svona yfir góða helgi. Eg naut þess alveg í botn að vera á þessum fallega stað með þeim. 
Með lyklinum sem við fengum að bústaðnum fylgdi boðsmiði á vorhátíð BSRB í Munaðarnesi. Við drifum okkur auðvitað þangað á laugardeginum og skemmtu strákarnir sér vel í hoppukastala og svo fór Guðbjörg með Oddi í Mini golf en við Magnús fylgdumst með Ragnari í hoppukastalanum. Tónarnir frá South River Band, sem spiluðu inni, hljómuðu svo út til okkar sem nutum veðurblíðunnar.  Eftir dagskrána inni var síðan boðið til veislu sem var sko ekki af verri endanum. Hlaðborð með snittum, smáréttum, konfekti , ávöxtum og kaffi  með. En svo tók ég eftir því þegar ég var búin með kaffið, að það var bæði hvítvín og rauðvín á borði við hliðina.  Auðvitað hefði ég átt að fá mér hvítvínsglas því ég var með einkabílstjóra, en ég grét nú svo sem ekkert yfir því að hafa ekki tekið eftir þessu því kaffið var bara mjög gott.  Allt var þetta í boði BSRB og fannst mér myndarlega að þessu staðið.

Við komum heim í áframhaldandi veðurblíðu í gær og ekki hefur veðrið verið lakara í dag. Í kvöld fékk ég svo í heimsókn konu, sem ég kynntist eftir heimsóknir hennar hérna á síðuna mína. Við horfðum á Heru Björk syngja  og sátum svo góða stund hérna úti á svölum í kvöldsólinni. Mér finnst alltaf svo gaman að fá heimsóknir og sakna þess mikið að fólk skuli hætt að banka uppá þegar því dettur í hug að líta inn.  Í dag er þetta að verða eins og ég kynntist því í Englandi þar sem enginn kom nema vera boðið í heimsókn. Ég er svo gamaldags að ég vil að fólk í mesta lagi hringi og athugi hvort maður sé heima og komi svo, eða banki bara uppá ef það er í nágrenninu og langar í kaffisopa.  

Jæja nú er komið miðnætti og best að hætta þessu kvöldrugli mínu og koma mér í rúmið. það verður nóg að gera á morgun.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

6 Responses to Smá samtíningur fyrir svefninn.

  1. Katla says:

    Mikið er ég sammála þér með óvæntu heimsóknirnar, þær eru ekki síður skemmtilegar en þær sem eru fyrirfram ákveðnar. Veðurblíðan sem leikur um okkur er einfaldlega himnesk og ekkert annað að gera en njóta hennar. Plönin vilja því fara lönd og leið á meðan. Góðar kveðjur: )

  2. Get ekki verið meira sammála. Hér getur maður „droppað“ inn hjá öllum á þess að gera stór boð á undan sér. Það eru forréttindi með kærri kveðju.

  3. Þórunn says:

    Það er sannarlega rétt hjá þér Ragna að maður kann betur að meta ljósið eftir að hafa upplifað myrkrið. Þetta er gott hvort með öðru. Ég vildi að ég gæti sagt það sama um heimsóknirnar, hér kemur enginn í heimsókn nema vera boðinn. En maður getur víst ekki haft allt og ég hef sannarlega ekki yfir neinu að kverta.
    Kveðja, Þórunn.

  4. Ragna says:

    Þakka ykkur fyrir viðbrögðin. Þórunn mín ég hef heldur ekki yfir neinu að kvarta, því það þarf svo sem ekki annað en að hringja og bjóða heim fólki, en maður á það til að detta niður í svona gamaldags hugleiðingar.

  5. hildur says:

    Sammála þér með óvæntar heimsóknir þær eru alltaf svo skemmtilegar. Sjáumst
    Kv. Hildur

  6. Rgna says:

    Mikið var gaman að þú tókst mig á orðinu Hildur mín og droppaðir inn í kvöld. Þú bjargaðir bara alveg kvöldinu fyrir mér. Takk fyrir komuna og endilega endurtaktu þetta við fyrsta tækifæri.

Skildu eftir svar