HM að byrja í sjónvarpinu – og þá er tilvalið að sinna dagbókinni aðeins.

Síðast þegar ég setti inn á dagbókina mína var ég að rifja upp ýmislegt um gamla kosningadaga. Nú eru kosningarnar yfirstaðniar, Jón Gnarr orðinn borgarstjóri í Reykjavík og á flestum stöðum landsins orðið allt annað umhverfi í stjórnsýslunni en áður. Allt er þetta nú gott og blessað ef þeir sem tekið hafa við standa sig og það munu þeir eflaust gera ef þeir leggja sig fram um það. Þetta er alla vega ekki meira í umræðunni í bili sem er hið besta mál. Það sem er í umræðunni núna eru hinsvegar ýmsar ráðstafanir ríkisstjórnarinnar, sem fólk er mis hrifið af. Ég hef reyndar örfáa hitt eða heyrt sem eru ánægðir með ráðslagið á þeim bæ, en þeir finnast þó eins og þegar síðasti Geirfuglinn fannst á sínum tíma.

Nú er að fara í hönd heimsmeistaramótið í fótbolta sem þýðir það, að flestir karlmenn sitja límdir við skjáinn í heilan mánuð. Það situr reyndar karlmaður við skjáinn í stofunni minni núna, en hann horfir nú aðallega á Suduko-gátuna sem hann er að fást við og þykist engan áhuga hafa á boltanum, sem þó glymur í tækinu.  Ég læt mér bara vel líka og sá að nú væri fínt að nota tímann og kíkja aðeins á dagbókarræfilinn minn og næra hana aðeins svo hún lognist ekki alveg útaf. Ég hlakka til að horfa á Barnaby þegar þessu BB (boltabrjálæði) lýkur í kvöld.

Haukur flaug heim s.l. föstudag frá Jótlandi eftir 8 vikna útivist að þessu sinni. Þegar hann fór út, þá rétt slapp hann milli öskugosa og þar sem Iceland Express var allt í einu búið að breyta flugnúmerinu úr Kaupmannahöfn í Gautaborg þá varð ferðalagið svo langt að það var eins og hann hefði verið að fljúga milli heimsálfa.  Hann fór héðan í gegnum Gautaborg, Málmey, Kaupmannahöfn og þaðan út á Jótland. Hann fór þetta með ýmsum farartækjum, flugvél, leigubíl ferju, lest og heimilisbíl, og var á ferðinni frá klukkan 9 að morgni héðan til klukkan þrjú um nóttina þegar hann komst á leiðarenda. Þegar hann kom heim á föstudaginn var, þá hittist á að þann dag lá mikið öskuryk yfir borginni  með mestu mengun sem orðið hefur í Reykjavík.
Það var hinsvegar ekki öskuryk, sem var ástæða þeirra hjá Iceland Express fyrir endalausum seinkunum þennan dag. Þeir voru búnir að flýta fluginu frá Billund af því að þeir höfðu bætt við millilendingu í Gautaborg á leiðinni frá Billund til Keflavíkur.  Þegar til Gautaborgar var loks komið eftir tveggja tíma seinkun í Billund,  þá þurftu farþegarnir að hírast í sætunum sínum í vélinni í klukkutíma og fengu engar veitingar nema eitt kakóglas á mann þegar vélin var komin í loftið aftur. Rausnaskapurinn var svo mikill að kakoið var í boði félagsins vegna þeirrar seinkunar og óþæginda sem farþegarnir höfðu orðið fyrir.  Þessi heimferð Hauks tók allt í allt 12 tíma og engan mat var hægt að fá í flugvélinni svo hann var feginn að fá kjötsúpu þegar hann kom heim.

Ég segi bara enn og aftur það á ekki að fljúga með þessu flugfélagi – Iceland Express. Ég var búin að segja frá því áður þegar það átti að skilja okkur eftir í Billund af því að við fundumst ekki í tölvunni þrátt fyrir að við veifuðum flugmiðunum framan í þá sem voru að bóka inn. – Það var sko örugglega búið að selja öðrum miðana okkar, enda vélin fullbókuð. Við rétt sluppum svo með sem "standby" farþegar fyrir mína þráhyggju og ef ekki hefði verið fyrir hjálpsamar flugfreyjur í vélinni, sem björguðu málinu með því að setja skátastráka í okkar pláss, þá hefðum við þurft að hýrast í sætum aftast í vélinni, sem voru eiginlega geymslurými og ekki boðleg þeim sem keyptu far með vélinni.  Skátastrákarnir fengu þó tækifæri til þess að gera sitt "Eitt góðverk á dag" og var góðverkið vel þegið.

Ennþá er boltinn langt frá því að vera búinn – seinni hálfleikur var að byrja, en ég vil ekki hafa færslurnar mínar of langar svo ég hætti hér og færi mig  aðeins yfir á Facebook og athuga hvort þar er eitthvað nýtt í fréttum.

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar