Góður laugardagur.

Saumaklúbburinn:


Um hádegið á laugardag komu þær brunandi „stelpurnar“ úr saumaklúbbnum mínum (allar nema Fjóla sem ekki komst). Þær komu í blíðskaparveðri en við vorum búnar að hafa hvílíkar áhyggjur af veðurspánni, éljum á laugardag, en létum samt slag standa í þeirri von að veðurspáin gengi ekki alveg eftir í þetta sinn. Það stóð heima. Laugardagurinn rann upp með sól og blíðu. Élin komu reyndar, en ekki fyrr en á laugardagskvöldið.


 Það er alltaf svo gaman þegar við hittumst „stelpurnar“. Vitanlega fer þó ekki hjá því að stundum sé talað um alvarleg mál en í þetta sinn vorum við nánast alveg á léttu nótunum.  Ég var með svona hádegissnarl til þess að geta tekið daginn nógu snemma. Allt stílað inn á að fara í góðu veðri báðar leiðir. Þær fóru svo til baka eitthvað að ganga fjögur.


Seinni heimsóknin:


Sigurrós, Linda, Bjarki og tengdamamma voru í heimsókn hjá Guðbjörgu. Ég var búin að bjóða ömmubörnunum að vera hjá mér á laugardagskvöldið og gista um nóttina því Guðbjörg var að fara á Sælkerakvöld kennaranna í skólanum. Guðbjörg átti að vera mætt rúmlega hálf fimm svo ég dreif mig þegar „stelpurnar“ fóru frá mér og sótti bæði ömmubörnin og gestina og við fórum öll hérna niður í Sóltúnið og þau stoppuðu góða stund hérna. Það er alltaf svo gaman þegar einhver kemur í heimsókn.


Krakkarnir voru svo hjá mér áfram og reyndar fram á miðjan dag á sunnudag vegna þess að Guðbjörg, sem hafði verið í skemmtinefnd Sælkerakvöldsins þurfti að fara um hádegi á sunnudag í Tryggvaskála og taka til og þrífa eftir djammið ásamt öðrum úr skemmtinefndinni. Það var hið besta mál því krakkarnir voru svo góð hérna allan tímann. Það eru alltaf smá tilfæringar hjá okkur Karlottu ef þau gista á laugardagskvöldi því Oddur fer að sofa klukkan átta en Karlotta sem er nú orðin sjö ára má vaka þangað til Gísli Marteinn og Spaugstofan eru búin en af því hérna sofa þau í sama herbergi þá er stubburinn ekkert hrifinn af því að Karlotta komi ekki líka inn að sofa. Hann sætti sig hinsvegar alveg við að hún þyrfti aðeins að hjálpa ömmu að taka úr uppþvottavélinni áður en hún kæmi inn. Við fórum því fram í eldhús fyrst og tókum í rólegheitum úr vélinni og þegar ég kíkti inn hjá honum var þessi elska steinsofnaður og svaf þangað til hann læddist klukkan hálf sjö um morguninn inn til ömmu og vildi kúra svoldið þar. Það var nú auðsótt mál. Hvorugt sofnaði nú reyndar eftir það. Á sunnudagsmorgninum var mikil sæla þegar í ljós kom að allt var orðið hvítt og þau vildu fara út á hólinn að leika sér, meira að segja var búið að finna út að það var ein snjóþota í skúrnum hjá ömmu. En, því miður þau voru ekki með neina galla með sér og ég vildi ekki fara að hringja og vekja Guðbjörgu til að láta hana koma með snjógalla. Það er ekki svo oft sem hún getur sofið út. Það varð því að finna upp á einhverju innanhúss til að milda vonbrigðin. Guðbjörg fór svo með þau í sund þegar hún var búin með skyldustörfin.


Já þetta var aldeilis frábær laugardagur.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar