Nýjustu fréttir – Húsbíll.

Ætli það sé ekki rétt að segja frá því sem er efst á baugi núna.

Haukur hefur verið að velta því fyrir sér hvað það væri gaman að eiga húsbíl og fara e.t.v. með hann til að aka eitthvað um erlendis. Það gerðist svo í vikunni að hann lét drauminn rætast og er nú eigandi að slíkum grip. Utanlandsferð er þó held ég ekki á dagskránni hjá honum þetta sumarið enda sjálfsagt að kynnast gripnum betur og fara jafnvel á námskeið um akstur erlendis áður en lagt er af stað í slíkt.

Hér átti að koma mynd, en það virðist alveg
útilokað núna að setja myndir á bloggið mitt.

Ég á því von á að vera talsvert á ferðinni í sumar (eftir því sem bakið leyfir) og hlakka mikið til að fá nú tækifæri til þess að skoða vel t.d. Barðaströndina og vestfirðina.

Mér var boðið í bíltúr á laugardagskvöldið því það þurfti að láta vatnstankinn,  sem búið var að setja hreinsiefni í, hristast vel. Við fórum hring um Heiðmörkina og niður í Hafnarfjörð og komum svo við í Draumaís hérna í Bæjarlindinni og keyptum ískúlur í brauðvöfflu og sátum svo eins og alvöru túristar og sleiktum upp ísinn okkar áður en við héldum áfram heim. Svo fór helgin að mestu í það hjá Hauki að ditta að hinu og þessu smálegu.

Nú þarf ég að fara í Símann og kaupa mér internet-pung svo ég geti haft tölvuna með á ferðalögum til þess að geta horft á fréttir og auðvitað veðurfréttir – og kannski kíkja á Facebook öðru hvoru ef tími vinnst til, eða lesa um þá staði sem heimsóttir verða. 

Já kröfurnar eru heldur betur aðrar nú en þegar við Oddur fórum hérna í gamla daga með lítið tveggja manna tjald með lausun botni í fyrstu útilegurnar, einn olíuprímus og einn pott.

Nú dugar ekki minna en að aka um í híbýlunum með ísskáp, klósetti og sturtu og öðru tilheyrandi.

Ég var rukkuð um það frá þeim sem ekki eru á Facebook, hvaða fréttir ég ætlaði að segj eftir helgina og nú er ég búin að upplýsa um hvað málið snerist. Ég vona svo bara að ég geti farið að koma myndum aftur inn á heimasíðuna, því þá get ég sett inn myndir úr ferðalaginu.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Nýjustu fréttir – Húsbíll.

  1. þórunn says:

    Heimili á hjólum
    Þetta var góð ákvörðun, að kaupa húsbíl. Það er svo þægilegt að ferðast eins og snigillinn með húsið sitt með sér ég hef bara prófað að keyra um með hjólhýsi í eftirdragi og fannst þægilegt að gista og elda í því, en húsbíll er auðvitað ennþá þægilegri og viturlegt að hafa hann ekki of stóran.
    Megið þið njóta margra góðra ferða og stunda í bílnum, vonandi rennið þið í hlað á Austurkoti einhvern daginn þegar þið verðið búin að æfa ykkur heima.

  2. Innilega til hamingju með þetta allt saman. Ég er viss um að hefði svona verið til á okkar tjaldútileguárum hefðum við gjarnan vilja eiga svona „lúxus“. Málið er að okkar kynslóð er búin með pakkann allan, og ef hægt er að kaupa þægindin gerum við það, og hana nú. Kærust í bæinn.

  3. Hildur says:

    Til lukku með nýjasta gripinn það verður gaman hjá ykkur að flakka um landið kanske sést til ykkar í Þingvallasveit. Kær kveðja Hildur

  4. Ragna says:

    Takk mínar kæru fyrir kveðjurnar. Það er aldrei að vita Hildur mín hvar okkur ber niður – þetta er afskaplega ljúft og skemmtilegt.

Skildu eftir svar