Verzlunarmannahelgin 2010.

Við vorum sein að ákveða hvað gera skyldi um þessa helgi og vorum satt að segja hálf lúin eftir ferðalagið að austan og gestakomu eftir það.  Á laugardag ákváðum við þó að fara austur á Rangárvelli og taka þátt í Sælukotshátíðinni.  Ég fór strax í að taka til það sem átti að flytja í ísskápinn í bílnum og annað smávegis sem þurfti að fara í bílinn. Haukur fór að skipta út stóra gaskútnum og kveikja á ísskápnum í bílnum.  Eftir nokkra stund kom hann hins vegar og sagði að ísskápurinn væri bilaður. Ég gekk þá frá öllu aftur og taldi að við tilheyrðum bara innipúkunum þessa verslunarmannahelgi, en Haukur fór út aftur og gerði fleiri tilraunir sem loks heppnuðust, svo okkur var ekkert að vanbúnaði lengur og maturinn var aftur fluttur á milli ísskápa.

Það var alveg yndislegt að vera með tengdafólkinu mínu í Sælukoti um helgina og ekki spillti veðrið. Þarna er ekkert kynslóðabil, allt frá ungbörnum og upp úr sem skemmta sér saman.

2010_verslunarmannahelgi1.jpg

Á laugardagskvöldið var sameiginlegt borðhald þar sem búið var að raða borðum og stólum á veröndina svo allir gátu setið saman að snæðingi. Eftir matinn og notalegt spjall fór hluti af hópnum í Kubb niðri á flötinni og síðan var kveikt í brennunni og vitanlega var brennusöngur með tilheyrandi.  Það fór enginn í rúmið fyrr en í fyrsta lagi um miðnættið sama hvort hann var nánast ungbarn eða við sjötugt.  Guðbjörg mín sagði morguninn eftir að Ragnar Fannberg hefði verið orðinn svo þreyttur þegar þau komu í fellihýsið um miðnættið, að í fyrsta skipti á æfinni þá hefði hann beðið um að fara að sofa.

2010_verslunarmannahelgin2.jpg

Þetta var alveg einstakt kvöld og ekki skammaði veðrið uppá. 

Á sunnudaginn var svo ratleikur og keppni í tertuskreytingum. Hver fjölskylda fékk einn tertubotn til að skreyta og sælgæti til að skreyta með. Ekki mátti vanta þeyttan rjóma svo hvert lið fékk litla gosflösku með rjóma í ásamt einni krónu. Þegar krónan var sett í flöskuna og hún hrist nógu lengi þá þeyttist rjóminn. Þetta hef ég aldrei séð gert áður.  Dómnefnd skipuð þeim Unnsteini og Heiði dæmdu svo samviskusamlega afraksturinn og röðuðu niður í verðlaunasætin.
Svo héldu frændsystkinin þeim sið að gróðursetja hver sitt tré til minningar um Guðbjörgu ömmu sína sem var ötul við að gróðursetja í kringum Sælukot enda orðinn þó nokkur skógur í kring.

Í þessari stórfjölskyldu dettur ekki nokkrum af unga fólkinu í hug að fara annað en í Sælukot um verslunarmannahelgar og má það örugglega teljast nokkuð sérstakt. Það er beðið eftir því allt árið að fara með mömmu og pabba og öllum hinum í Sælukot um verslunarmannahelgina.

Ég þakka kærlega fyrir að fá að njóta helgarinnar með tengdafólkinu mínu og með eigin afkomendum.

Allar myndirnar mínar eru svo hér.

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Verzlunarmannahelgin 2010.

  1. Anna Bj. says:

    En hvað þetta hefur verið skemmtilegt.

  2. Valdís Vilhjálmsdóttir says:

    Sæl Ragna
    Sé að þið eruð komin með Húsbíl eins og við það er frábært að geta ferðast um frýr og frjáls bæði hér og erlendis. Gaman að þú skyldir fara inn á Laufskálasíðuna og sjá gömlu myndirnar,
    myndin af ykkur Krissu gömlu vinkonunum er svo sæt. Kveðja Valdís

  3. Ragna says:

    Þakka þér fyrir Valdís. Ég var svo hamingjusöm þegar ég datt inn á Laufskálavefinn því ég á svo margar minningar þaðan. Þegar ég skoðaði myndirnar þá mundi ég t.d. strax eftir skrifstofunni hans pabba þíns og hvar hún var á hæðinni og líka stofunni, sem var þvert yfir húsið, allt ljóslifandi fyrir augum mér. Mér þótti alltaf alveg einstaklega vænt um foreldrana þína – þau voru mikið gæðafólk.

  4. Katla says:

    Unga fólkið í fjölskyldunni er einfaldlega lánsamt að eiga um þessa skemmtun að velja sjálfa Verslunarmannahelgina. Frábærar myndir sem sýna vel frábæra stemmingu.

Skildu eftir svar