Pínku pistill um allt og ekkert.

þá er þessi vikan liðin – hefur flogið eins og þær gera flestar.  Nú er kominn þessi tími sem mér finnst alltaf skemmtilegur, ekki síst fyrir það að skólarnir eru að byrja.  Mér finnst alltaf jafn skemmtilegt að fylgjast með litlu krökkunum trítla hérna niður að skólanum á morgnanna, með stóru skólatöskurnar sínar, sem eru svoooo stórar að það má vart á milli sjá hvort er stærra. Þessi tími vekur alltaf ákveðnar tilfinningar og minningar, bæði hvað varðar sjálfa mig og þegar stelpunurnar mínar voru að byrja sína skólagöngu, en því fylgdi alltaf mikil tilhlökkun og eftirvænting og gerir raunar enn því stelpurnar völdu sér báðar kennarastarfið til þess að geta byrjað í skólanum á hverju hausti allt lífið. já svona er þetta nú.

Ég skrapp austur að Flúðum að heimsækja Sigurrós, Jóa og litlu dúllurnar þeirra í vikunni og fannst tilvalið að fá pabba Jóa sem ferðafélaga, því hann hafði líka ætlað sér að fara. Það er miklu skemmtilegra að vera tveir í bíl, en að keyra hver á eftir öðrum. Við vorum bara heppin með veður og þetta var fín ferð.

Núna ólmast veðrið hins vegar eins og þegar haustlægðirnar skella sem kröftugast yfir, bæði rigning og rok. Þar sem ég sit við gluggan minn og horfi til Keflavíkur þá finn ég til með þeim á Reykjanesinu hvað veðrið ætlar að stríða þeim á Ljósanæturhátíðinni þeirra. Vonandi hraðar veðrið sér yfir svo það lægi kannski og stytti upp á morgun.

Það er aðra sögu að segja af Hauki sem sleikir nú sólina á norðaustur horninu. Þeir bræður hann og Bjarni eru, eins og þeir hafa gert á nánast hverju sumri, að sinna viðhaldsvinnu á bernskuheimilinu Steinholti. Þeir eru langt komnir með vinnuna en á meðan veðrið er svona gott fyrir austan og rigning hér þá er ekki spurning hvorum staðnum þeir kjósa að dvelja á, svo það má búast við að heimferðin geti dregist.  Ég var spurð að því í gærkveldi hvort ég kæmi ekki bara með næsta flugi austur í góða veðrið – en ég þarf aðeins að hugsa betur hvað ég geri í málinu.

Það gengur mikið á í pólitíkinni eins og fyrri daginn og sitt sýnist hverjum. Ég legg það ekki í vana minn að skrifa um pólitíkina – þá leiðinlegu tík sem aldrei er til friðs, en ég verð að játa að ég er ekkert upprifin yfir þessari stjórn sem við sitjum uppi með og hún fengi engin tár frá mér ef hún springi í loft upp.  Jæja segi nú ekki meira.

Öll búum við yfir þeim hæfileika að komast í gegnum
lífið og vera blíð, samúðarrík, skilningsrík og umburðarlynd.

Nei elskurnar mínar þetta sem er hér fyrir ofan á ekkert skylt við ríkisstjórnina.

Góða helgi kæru vinir nær og fjær.

 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

One Response to Pínku pistill um allt og ekkert.

  1. Tek undir með þér mín kæra, en gat þó ekki stillt mig um smá blástur á blogginu mínu. Haustið svífur að hér líka, en hlýtt og notalegt. Kveðja í bæinn.

Skildu eftir svar