Vinir og aðrar vangaveltur.

Ekki stóð nú lengi rigningin og rokið sem ég minntist á í síðasta pistli mínum. Það er eins og máttarvöldunum sé ekkert vel við þessar bæjarhátíðir því það er helst að það rigni og blási þegar þær standa yfir hérna á suðvesturhorninu, en þess á milli er þessi líka rjómablíðan.  Í gær og í dag hefur vart blaktað hár á höfði og ekki skýhnoðri á himni. 

Ef ég passa mig á að hlusta ekki eða horfa á fréttatíma fjölmiðlanna, en horfi þess í stað út um gluggan á fallega haustveðrið, á fólkið sem spilar golf í gríð og erg á golfvellinum og börnin sem tölta til og frá skólanum eða eru í leik hérna fyrir utan, þá líður mér rosalega vel og elska allt við þessa yndislegu tilveru. En þegar ég er svo vitlaus að hlusta eða horfa á þessar pólitísku fréttir þá verð ég bæði reið og pirruð og æsi mig upp þó ég viti að það geri nú lítið gagn, enda hef ég ekki hundsvit á pólitík bara eitthvað í mér sem fer í gang. Það væri kannski rétt að kalla þetta strútseinkennið, að stinga bara hausnum í sandinn og láta sem þetta pólitíska þvaður og rifrildi sé ekki til.

Ég átti mjög skemmtilegt kvöld á Madonnu í gærkveldi með fyrrum vinnufélögum mínum. Við erum níu skvísur sem unnum saman ýmist lengur eða skemur á málflutningsskrifstofunni. Nú eru allar nema ein komnar til annarra starfa eða hættar að starfa, en við hittumst alltaf a.m.k. einu sinni á ári og förum út að borða. Það er alltaf jafn gaman í þessum hittingi okkar og þó að nokkrar séu á Facebook og þannig fái maður svona helstu fréttir, þá eru ekki allar þar og ekkert jafnast auðvitað á við það að hittast augliti til auglitis og fá fréttirnar í beinni.

Hér erum við skvísurnar.
Undirrituð er aldursforseti, en á þó ekki lengur metið 
að hafa unnið lengst á stofunni, Íris hampar nú þeim titli.

avonladies___sept.__2010.jpg 

Hamingjan felst í því að forgangsraða eftir að maður
hefur áttað sig á því, að þó hægt sé að endurnýja hluti
þá verður ekki það sama sagt um vini. Því ber að rækta vinasamböndin vel. 
 

 

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

Skildu eftir svar