Að vera þakklát fyrir lífið.

 Er það sjálfsagt mál að maður eigi að geta flotið í gegnum lífið án nokkurra hnökra? 
Á maður með sanni að geta verið sár og bitur yfir þeim erfiðleikum sem maður hefur þurft
að ganga í gegnum?
Er það af því að Guð sé vondur, að maður hefur mætt erfiðleikum á lífsleiðinni?  

Öllu þessu svara margir játandi og ég veit um fólk sem hefur orðið svo reitt þegar sorg dynur yfir, að ekkert annað kemst að en endalaus reiði. Sama fólk segir þetta sönnun þess að Guð sé ekki til því annars myndi hann sleppa fólki við sorg og þjáningar.

Í fyrsta lagi er hvergi loforð um að lífið eigi eingöngu að vera dans á rósum. Þó svo að bæði sé dansinn skemmtilegur og rósirnar fallegar. Það er heldur ekkert loforð fyrir því að ekkert eigi að koma fyrir mig, eða að ég eigi að geta farið áhyggjulaus í gegnum lífið. Það sé eðlilegt að það komi  eitthvað fyrir hina, en ekki mig. Það sé brot á loforði ef eitthvað alvarlegt komi fyrir hjá mér og það hljóti þá að vera sönnun þess að Guð sé ekki til. 

Ég er bara á allt öðru máli, þó ég hafi í raun ekki hugmynd um það frekar en aðrir hvað Guð í rauninni er. Fyrir mér er hann afl sem er bæði mér og öllu öðru æðra.
Ég hef sannreynt að það er afl sem lætur mér líða vel, jafnvel í mestu erfiðleikum og sorg.
Afl sem lætur ánægju og vellíðan gagntaka mig þegar ég er stödd á fallegum stöðum og virði fyrir mér fallega náttúru í kringum mig. Lætur mér líða vel og njóta, þegar ég er með fjölskyldu minni og vinum og þegar held á litlu barnabörnunum.  Þetta afl eða tilfinning er oft svo sterk að maður fyllist einhverju ólýsanlegu þakklæti fyrir lífið og tilveruna, þrátt fyrir að hafa á lífsleiðinni orðið fyrir miklum tímabundnum erfiðleikum, djúpri sorg og verið við dauðans dyr í veikindum tvisvar á ævinni. Það er mikil gjöf að kynnast svona afli sem fylgir manni í gegnum lífið og er alltaf svo nærtækt án þess að vera nærgöngult.

Það sem þetta ólýsanlega afl gerir er að hjálpa okkur til þess að skilja og tileinka okkur allt það jákvæða sem í kringum okkur er og sætta okkur við það að við erum ekki undanskilin því að ganga í gegnum ýmis erfið þroskastig á ævinni. Það er nefnilega svo að hver sorg og þraut eflir okkur og styrkir.

Það er kannski einföld skýring, að til þess að geta metið birtuna þurfi að hafa kynnst myrkrinu.

Nú megið þið alls ekki halda að ég sé á einhverju erfiðleikastigi í lífinu núna. Ég var svo full af  þakklæti fyrir lífið og tilveruna í morgun að ég ætlaði að skrifa aðeins um það.  Það sem ég hef skrifað er allt annaða en var þá í huga mér að setja á blað. Þetta gerist bara stundum að eitt á að skrifa en allt annað kemur ritað.

Njótum hvers dags sem okkur er gefinn.
Verum þakklát fyrir allt sem okkur hlotnast.
Verum þakklát fyrir að fá að njóta hvers annars
og þess sem í kringum okkur er.

ingvallamynd__blogg1.jpg

This entry was posted in Óflokkað. Bookmark the permalink.

4 Responses to Að vera þakklát fyrir lífið.

  1. Björk says:

    Góð speki
    Þetta er góð speki og ég er hjartanlega sammála þér Ragna. Það komast fæstir í gegnum lífið án erfiðleika en við lærum líka mikið á erfiðleikunum og svo höfum við alltaf trúna til að stappa í okkur stálinu.

  2. Það sem ekki drepur mann styrkir mann. Mér finnst þetta ekki vitlaus speki. Hef reynt að lifa með henni, því lífið er gott þrátt fyrir allt. Með kærri í bæinn.

  3. afi says:

    Alheimsorkan
    Sumir segja að Guð sé orka. Það er undir okur sjálfum komið hvernig við nýtum þessa orku og þetta alheimsafl. Þetta var góð lesning og umhugsunarverð. Þakkir fyrir öll þín góðu og jákvæðu skrif í gegnum árin. Þau ættu að kenna okkur að með jákvæðni og góðum hug getum við það sem við ætlum okkur. Lýtum á tímbundna erfiðleika sem leið til frekari þroska. Þökkum fyrir allar góðar stundir sem lífið hefur gefið nokkur. Hinar meiga falla í gleymskunnar dá. kveðja afi.

  4. Svanfríður says:

    Satt
    Þessi pistill þótti mér fallegur og fullur af gæsku,gleði og þakklæti.Svo fannst mér hann svo sannur.Takk fyrir þetta.

Skildu eftir svar